Námskrá Tálknafjarðarskóla

Námsskrá Tálknafjarðarskóla

 

 1. Námskrá beinir sjónum að markmiðum. Í upphafi skyldi endinn skoða. Vel þekkt og skýr markmið greiða fyrir námi og kennslu

2. Námskrá stuðlar að skilvirku starfi. Hún hjálpar mönnum meðal annars til þess að sjá fyrir hugsanleg vandkvæði þannig að bregðast megi við þeim á viðeigandi hátt þegar upp koma. Líkur á markvissu starfi aukast.

3. Námskrá leiðir til sparnaðar á tíma og orku. Hættan á að hjakka í sama fari minnkar.

4. Námskrá auðveldar miðlun og samræmingu þess sem gera þarf. Hún felur í sér skipulag sem eykur líkurnar á samræmdu starfi þannig að eitt rekist ekki á annað.

5. Námskrá dregur úr streitu. Kennsla er talsvert streitustarf. Rannsóknir hafa sýnt að óskipulögð kennsla án áætlana veldur miklu meiri streitu en kennsla sem styðst við námskrá

ETAI (Enhanching Teachers Ability in Inclusion) verkefnið er afrakstur samvinnu skólafólks frá Austurríki, Íslandi, Portúgal og Spáni. Tilgangur verkefnisins er að efla færni kennara í að skipuleggja heiltækt skólastarf. ETAI skilgreinir námskrá sem skipulag skólans og hlutaðeigandi kennara á kennslu og námi í skólanum. Námskráin er talin fela í sér þætti á borð við markmið um árangur, inntak náms, kennsluaðferðir, félagslegt uppeldi og siðferði og gildismat sem bekkjarstarfið endurspeglar.

Hér á eftir fara dæmi um möguleg viðfangsefni fyrir hvert námsár með tilvísun í þroska barna

1. námsár: Ævintýri og frjáls leikur. Frjálsi leikurinn þroskar öll skilningavit og eflir sjálfstraust. Litið er á sjálfsprottna leikinn sem tækifæri til að reyna á sig og öðlast hreyfifærni sem grunn að jákvæðum félagsþroska og öflugri rökhugsun á fullorðinsárum. Heimur ævintýra tengir tilfinningalíf og skapandi ferla.

2.námsár: Heimur þjóðsagna. Börn leggja allt sitt traust á umhverfi sitt og hafa þörf fyrir að eiga sér ákveðinn sess í því. Stórbrotnar og margslungnar þjóðsögur höfða jafnt til ímyndurarafls barnsins og tilfinninga þess. Sögurnar öðlast líf í listsköpun barnsins sem notar til þess liti, lag og tóna.

 3.námsár: Dæmisögur og goðsagnir. Ungir nemendur geta tekist á við siðferðislegan boðskap dæmisagna. Smám saman átta börn sig á því að heimurinn er ekki alltaf góður. Í goðsögnum glíma söguhetjurnar við stórfelldan vanda sem þær eru oftast illa í stakk búnar til að leysa. Þó tekst það að lokum og hetjurnar öðlast auðmýkt og styrk og verða börnunum mikilvæg hvatning og fyrirmynd.

 4.námsár: Mannheimar. Á aldrinum 9-10 ára hafa börnin öðlast meiri vitrænan þroska sem gott er að höfða til með sögum af fornum starfsgreinum mannsins, akuryrkju, fiskveiði og búskap sýna barninu hvernig maðurinn og lífshættir hans setja mark sitt á náttúruna.

5.námsár: Veröld víkinga. Saga víkinganna, að hluta til sönn, að hluta til spunnin, lyftir fortíðinni upp úr duftinu og birtir sterkar myndir úr norrænni goðafræði, hetjusögum og Íslandssögunni. Dýrafræði dregur síðan fram einföld og skýr einkenni mismunandi tegunda, hæfni þeirra og háttalag. Um leið kemst hið flókna eðli mannsins í brennidepil.

6.námsár: Fornir menningarheimar. Grikkir. Þegar forn menning víðsvegar um heiminn er krufin kemur í ljós þróunarmynstur sem sýnir hvernig maðurinn lærir að nýta auðlindir jarðar í sína þágu. Í plöntufræði birtist heimurinn sem fagurt teppi, ofið úr þráðum lífs og gróanda og nemendur átta sig á hvernig jurtir laga sig að ólíkum heimkynnum.

7. námsár: Náttúrulögmálin. Rómaveldi. 12 ára gömul hafa flest börn öðlast færni til að skilja hin ýmsu náttúrulögmál. Þá eru algeng fyrirbæri rannsökuð í þaula út frá hljómfræði og sjón. Í rúmfræði æfa nemendur sig í að vinna af nákvæmni og í mannkynssögunni verða lagasetningar Rómaveldis og tilraunir til að tryggja réttlæti öllum til handa, viðfangsefni sem höfðar til barnanna.

 8.námsár: Landafundirnir. Á 13-14. aldursári verða nemendur oft uppteknir af sjálfum sér og sá tími er valinn til að beina sjónum þeirra út á við, á vit landafundanna. Hugrakkir, hugvitsamir könnuðir og ný sýn á samspil manns og náttúru verður í brennidepli. Í stjarnfræði er litið enn lengra, út í óravíddir geimsins.

9.námsár: Iðnbyltingin. Nemendur vilja hafa áhrif á eigið umhverfi. Í sögu og eðlisfræði er megináhersla á iðnbyltinguna og enn nýjar aðferðir mannsins til að nýta auðlindir jarðar. Nemendur leita orsaka og afleiðinga og meta þær.

 10.námsár: Byltingar og breyttir stjórnarhættir. Meginviðfangsefni þessa árs gæti verið leiðin frá stórbrotnum hugmyndum og eldheitum hugsjónum til raunverulegra stjórnarhátta. Rómantík og raunsæisstefnur eru skoðaðar í bókmenntum. Kennslan einkennist meira af spurn og greiningu á veruleikanum en áður. Listasaga, þjóðfélagsfræði og umbreytingar efnisins gefa veruleikanum vídd.

Námsskráin miðast ekki eingöngu við að vera í samræmi við mikilvægustu þroskastig barnæsku og unglingsára heldur einnig við að örva mikilvæga þroskandi reynslu. Ákveðið efni sem kennt er á sérstakan hátt getur vakið nýja hæfileika, nýja sýn, nýjan skilning.

 En eru börn alls staðar eins? Hafa þau öll sömu þarfir og hraða í þroskaferli sínu? Svarið er að sjálfsögðu nei. Fjölbreytni er helsta einkenni mannsins. Þótt hægt sé að beita persónuleikaflokkun á margvíslegan hátt til að skilja fólk, til dæmis með því að athuga að skapgerð, líkamsbyggingu, sálfræðilega týpu, menningarleg sérkenni, landfræðilegan mismun og svo framvegis, er mest ríkjandi einkennið alltaf einstaklingseðlið.

Grunnþættir menntunar sem lagðir eru til grundvallar íslensku aðalnámskránni eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Í aðalnámsskrá segir: “grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum.” Námsskráin er í sjálfu sér menningarlegt ferli sem endurspeglar og styður alhliða við þroska barnsins og eru grunnþættir hennar að miklu leyti í samhljómi við þessa þætti sem lagðir eru til grundvallar í aðalnámsskrá. Eitt mikilvægasta hlutverk kennarans er að skapa umhverfi þar sem nemendur geta þroskað þá færni sem þeir þurfa til að geta tekið þátt í að móta samfélag til framtíðar með skilningi á samábyrgð og vissu um eigin getu til breytinga.

 

 

Námsskrá einstakra námsgreina væntanleg