Nú er september genginn í garð og næstu þrjár vikur munum við taka fyrir þemað Umhverfi og lestur. Í þessu heildstæða verkefni munum við leggja áherslu á að nýta umhverfið okkar til þess að hjálpa okkur að læra. Við munum samhliða hvetja til lesturs í hvers kyns formi. Nemendur og foreldrar geta fylgst með framvindu verkefnisins í gegnum námslotu í Mentor undir nafninu Umhverfi og lestur þar sem hægt verður að skoða það sem verið er að meta hverju sinni með hæfniviðmiðum aðalnámskrár.

Með breyttum áherslum í kennslu leggjum við áherslu á að innleiða fjölbreytta kennsluhætti í starf Tálknafjarðarskóla sem og skapandi skólastarf. Með þessari leið fá nemendur tækifæri til þess að finna þær námsleiðir sem henta þeim. Samþætting námsgreina leiðir til heildstæðari verkefna og aukins læsis t.d. tengjast umhverfisvitund, heilbrigði og sköpun inn í mörg viðfangsefni. Markviss innleiðing grunnþátta menntunar í skólastarfi getur haft áhrif á faglegan metnað og styrkt kennara.

Grunnþættir aðalnámskrár eru:

læsi

sjálfbærni

heilbrigði og velferð

lýðræði og mannréttindi

jafnrétti

sköpun

Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Nauðsynlegt er að nálgast viðfangsefni á heild­stæðan hátt af faglegri víðsýni og eftir atvikum samfaglega. Það getur kallað á óhefðbundna kennsluhætti og nýstárlega nálgun í skólastarfi.

Við í Tálknafjarðarskóla leggjum mikla áherslu á samvinnu og að byggja upp öflugt lærdómssamfélag innan skólans. Þær leiðir sem við förum eru meðal annars faglegir fimmtudagar þar sem starfsfólk hittist einu sinni í viku og vinna saman að faglegum störfum með það að leiðarljósi að bæta starf skólans. Einnig eru lærdómssamfélagshittingar tvisvar í mánuði þar sem starfsfólk lærir hvert af öðru og hvert með öðru til þess að bæta árangur í eigin starfi. Þar eru meðal annars leshringir, lestur fræðigreina, starfendarannsóknir og kynning einstaklinga á því viðfangsefni sem þeir eru að prófa sig áfram með. Við erum spennt fyrir skólaárinu og hlökkum til að takast á við viðfangsefni ársins.