Viðbrögð við óveðri

Tilmæli um viðbrögð foreldra/forráðamanna barna í skólum og lengdri viðveru

Skólastarf og lengd viðvera fellur ekki niður nema annað sé tilkynnt. Mikilvægt er að foreldrar sjálfir fylgist með veðri og veðurspám og hagi sér í samræmi við aðstæður hverju sinni, enda getur veður þróast með ófyrirséðum hætti og aðstæður verið mjög mismunandi eftir svæðum. Foreldrar leggja sjálfir mat á hvort fylgja þarf barni í skóla þótt engin tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Meti foreldrar aðstæður svo að ekki sé óhætt að börn þeirra sæki skóla þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll.

Hið sama gildir ef foreldrar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa. Mikilvægt er að fólk fari ekki af stað til skóla eða vinnu ef það treystir sér ekki eða er vanbúið til farar, t.d. vegna vanbúinnar bifreiðar til vetraraksturs.

Tilkynningar

Tilkynningar eru settar fram í samvinnu við Veðurstofu Íslands og er þá viðvörunarkerfi hennar haft til hliðsjónar. Sjá nánari upplýsingar.  Hafi Veðurstofan gefið út gula , appelsínugula  eða rauða viðvörun þá eru tilkynningar virkjaðar.

Kappkostað er að  senda tímanlega út tilkynningu um röskun á skólastarfi. Áríðandi er að foreldrar fylgist með tilkynningum á vefsíðu eða facebooksíðu skólans og fari að tilmælum. Foreldrar skulu ævinlega leita eftir staðfestum tilkynningum yfirvalda.

Tvö viðbúnaðarstig:

Þegar veðurspár gefa til kynna að óveður sé í aðsigi er fylgst gaumgæfilega með og gefnar út viðvaranir til almennings, gerist þess þörf. Um er að ræða tvö viðbúnaðarstig vegna óveðurs:

VIÐBÚNAÐARSTIG 1: 

Röskun verður á skólastarfi vegna erfiðleika starfsfólks og nemenda við að komast til skóla – foreldrar fylgi börnum í skólann. Röskun getur orðið á skólastarfi vegna veðurs ef starfsfólk á erfitt með að komast í skóla. Við þessar aðstæður eru skólinn engu að síður opnaður og tekur á móti nemendum og þeir geta dvalið þar á meðan skipulagt skólahald á að fara fram. Mjög mikilvægt er að foreldrar fylgi börnum til skóla og yfirgefi þau alls ekki fyrr en þau eru í öruggum höndum starfsfólks. Í upphafi skóladags getur verið að mönnun skóla sé takmörkuð. Geisi óveður við lok skóladags er metið hvort óhætt sé að senda börnin heim eða hvort ástæða er til að foreldrar sæki börn sín. Þá eru gefnar út tilkynningar um það, auk þess sem skólinn leggur sig fram um að hafa samband við foreldra.

VIÐBÚNAÐARSTIG 2: 

Skólahald fellur niður. Séu aðstæður þannig að óhjákvæmilegt sé að fella skólahald niður um tíma vegna veðurs verður það tilkynnt á heimasíðu Tálknafjarðarskóla og á Facebook síðu skólans. Þá ber foreldrum að halda börnum sínum heima þangað til tilkynningar berast um annað. Skólastjórnendur og annað starfsfólk fylgist vel með tilkynningum og bregðast við þeim (í samráði við bæjaryfirvöld og/eða lögreglu) með því að láta foreldra/forráðamenn vita t.d. senda tilkynningu í útvarpið og setja tilkynningu inn á heimasíðu skólans og á Facebook. Meti foreldrar/forráðamenn það svo að best sé að halda börnum heima vegna veðurs eða færðar skulu þeir tilkynna skólanum um forföll barnsins og er það þá skráð sem leyfi og merkt ófært/óveður í ástundun.

 

Öryggishandbók leikskóla

Öryggishandbók grunnskóla