Eineltisáætlun Tálknafjarðarskóla 2019-2020

Í 30 gr. laga um grunnskóla, nr.91/2008 segir m.a.:

Grunnskólar skulu hafa heildstæða stefnu um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi. Skólar skulu einnig hafa áætlun um framkvæmd tilkynningarskyldu, samkvæmt barnaverndarlögum, um hvernig brugðist er við tilvikum um einelti, annað ofbeldi og félagslega einangrun.

Í 7 gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011 segir:

Aðgerðir skóla gegn einelti taki til skólans í heild, einstakra bekkjardeilda, námshópa og einstaklinga. Hver kennari ber ábyrgð á að framfylgja með virkum og ábyrgum hætti aðgerðaráætlun skólans gegn einelti og skólastjóri ber ábyrgð á að starfið sé samhæft.

Tekið er á vandamálum í sambandi við einelti eða ofbeldi í nánu samstarfi við forráðamenn

 1. Með fyrirmynd kennara og starfsfólks skólans.
 2. Með inngripi í umhverfi, aðstæður og félagsleg samskipti einstaklinga og hópsins sem um ræðir.
 3. Með viðtölum og beinum leiðbeiningum við gerendur og þolendur og forráðamenn. 

Samvinna heimilis og skóla er lykillinn að árangri í glímunni við einelti. Við biðjum forráðamenn að upplýsa starfsfólk skólans um jafnt lítil sem stór félagsleg vandamál sem nemandi á við að stríða í skólanum. Kennarar og starfsfólk skólans vinna einstaklingsbundna eineltisáætlun fyrir hvert vandamál, þar er bekkjarkennarinn fulltrúi nemandans. Kennarar og starfsfólk skólans vinna með félagsmótun bekkja og forvarnir til þess að koma í veg fyrir einelti. Það er gert með umræðum, hópleikjum og samvinnu inn í bekkjum. Forvarnarstarf er framkvæmt af hverjum bekkjarkennara fyrir sig í gegnum félagsmótun og námsefni. Einnig eru alltaf tveir starfsmenn úti í frímínútunum til að fylgjast með, vera styðjandi og stinga upp á og koma af stað hópleikjum. Komi upp eineltismál er stuðst við eineltisáætlun skólans og leitað leiða til að leysa málið.

Í Tálknafjarðarskóla er einelti ekki liðið. Forvarnarstarf gegn einelti er unnið í daglegu lífi skólans að fyrirmynd kennara og starfsfólks með því að leggja inn kærleiksrík lífsgildi í öllum samskiptum og starfi með nemendum. Komi fram vísbendingar eða tilkynningar um einelti er það skylda skólans að bregðast við. Samvinna heimilis og skóla er einnig lykilatriði að árangri í glímunni gegn einelti. Í þessari áætlun er sett fram skilgreining á því hvað er einelti, farið yfir það hvernig skólinn hagar forvörnum gegn einelti, viðbragðsáætlun ef um einelti er að ræða og aðgerðaráætlun sem skólinn vinnur eftir í eineltismálum.

Hvað er einelti?

Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt og/eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á einstaklingi sem á erfitt með að verjast. Framferðinu er stýrt af einstaklingi eða hópi og beinist að einum aðila sem ekki tekst að verja sig. Einelti felur í sér eina eða fleiri birtingarmyndir t.d. að einstaklingurinn er tekinn fyrir með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi ummælum, munnlega eða gegnum tölvu og símasamskipti, andlegri kúgun, hótunum af ýmsu tagi, líkamlegri misbeitingu og eyðileggingu eigna eða félagslegri höfnun og útskúfun úr hópi. Einelti felur í sér misbeitingu á valdi með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og hann finnur til varnarleysis og ótta. Einelti getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir líkamlega og andlega heilsu þolanda. Þolandi eineltis vill oft ekki segja frá vegna ótta um frekari skaða og þess vegna er mjög mikilvægt að allir þekki einkenni eineltis.

Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn einelti

Kennarar og starfsfólk:

Umsjónarkennarar bekkja eru í lykilaðstöðu til að vinna forvarnarstarf gegn einelti. Þeir vinna með félagsmótun bekkja, leggja áherslu á að efla bekkjaranda og sýna gott fordæmi með samskiptum sínum í skólanum. Þeir ræða um einelti við nemendur sína og brýna fyrir þeim að einelti sé ekki liðið í skólanum og hvernig bregðast eigi við ef nemandi verður vitni að einelti. Allt starfsfólk skólans sé meðvitað um að forvarnir gegn einelti felast í góðum samskiptum, góðum skólabrag og virðingu og umhyggju í öllu skólastarfi. Kennarar og starfsfólk þurfa að vera tilbúin að hlusta á nemendur og ríkja þarf traust á milli nemenda og starfsfólks. Trúnaður er oft forsenda þess að greínt sé frá einelti eða ofbeldi. Kennarar og starfsfólk séu meðvituð um skólareglur og þær innihaldi ákvæði um góð samskipti og virðingu. Kennarar og starfsfólk sjái til þess að gæsla í frímínútum og á öllu svæði skólans sé þess eðlis að hún fyrirbyggi einelti og ofbeldi.

Nemendur:

Lagt er upp með að nemendur séu meðvitaðir um sína ábyrgð í því að skapa góðan skólabrag og góðan bekkjaranda. Nemendum sé gert ljóst að komi upp alvarlegur ágreiningur geti þeir ávallt leitað eftir aðstoð hjá kennurum og starfsfólki skólans. Lagt er áherslu á að nemendur taki afstöðu gegn einelti í hverjum bekk fyrir sig með fræðslu frá umsjónarkennara sínum og umræðu um hvað skuli gera ef nemendur verða varir við einelti. Nemendur skulu vera reiðubúnir að hjálpa og benda kennurum/starfsfólki á ef þeir verða varir við einelti í skólanum.

Ábyrgð

Vakni grunur um einelti á að láta umsjónarkennara viðkomandi nemanda vita sem síðan ber ábyrgð á að koma upplýsingum til eineltisteymis skólans. Stjórn skólans ber ábyrgð á úrvinnslu og skráningu eineltismála innan skólans. Allir kennarar skólans starfa saman í eineltisteymi ásamt skólastjóra. Hlutverk teymisins er að halda utanum og stýra vinnslu þeirra eineltismála sem upp koma. Eineltisteymi sér um að kanna reglulega líðan nemenda í skólanum og að veita nemendum fræðslu um birtingarmyndir eineltis, t.d. neteinelti og viðbrögð við því. Skólastjóri skólans ber ábyrgð gagnvart foreldrum á að gæsla sé góð í frímínútum, á skólalóð, á göngum og í búningsherbergjum v. íþrótta- og sundkennslu.

Foreldrar:

Foreldrum ber að innræta börnum sínum góð lífsgildi, að bera virðingu fyrir öðrum og hvetja þau til góðra samskipta við skólafélaga sína og kennara og starfsfólk skólans. Foreldrar láti börn sín vita að þeir séu alltaf til staðar og tilbúnir að hlusta á þau og veita þeim stuðning varðandi líðan í skólanum. Foreldrar séu upplýstir um stefnu skólans í eineltismálum og þeir hvattir til að taka afstöðu og vinna með skólanum að því að uppræta einelti. Foreldrar skulu hafa samband við umsjónarkennara barns síns ef þá grunar að einelti eigi sér stað í skólanum.

Kannanir og upplýsingar:

Foreldrar barns sem verður fyrir einelti í skólanum fær upplýsingar um það eins fljótt og auðið er, er gerð grein fyrir aðgerðaáætlun skólans varðandi einelti og hvað skólinn muni gera til að tryggja öryggi barnsins. Einfaldar kannanir eru lagðar fyrir nemendur varðandi líðan og samskipti sem hæfa aldri nemenda. Umsjónarkennarar sér um úrvinnslu þeirra.

Viðbragðsáætlun um einelti.

Komi ábending um einelti er viðbragðsáætlun um einelti sett í gang. Áætlunin er sveigjanleg þannig að eineltisteymi skólans metur hverju sinni hvort bregða þurfi út af henni. Áætlunin er ávallt unnin í samráði við viðkomandi foreldra.

Fyrsta þrep­ – Athugun

 1. Umsjónarkennari viðkomandi bekkjar kallar foreldra þolanda á fund og fer yfir tilkynningu um einelti með þeim. Foreldrar eru upplýstir um það hvernig unnið verður samkvæmt áætlun í málinu.
 2. Umsjónarkennari kallar eineltisteymi skólans á fund. Ákveðnar eru aðgerðir til að tryggja öryggi þolandans. Umsjónarkennari þolanda og einn aðili úr eineltisteymi skólans eru skilgreindir sem ábyrgðaraðilar málsins.
 3. Á þessum fundi er gerð áætlun um athugun í þeim árgangi þar sem grunur leikur á einelti. Umsjónarkennari talar við nemendur í bekknum til að varpa ljósi á ástandið.
 4. Umsjónarkennari aflar sér upplýsinga hjá öðrum kennurum og starfsfólki skólans varðandi málið.
 5. Ef þörf er talin á skal lögð tengslakönnun fyrir bekkinn.
 6. Nemendarverndarráð er upplýst um að vinnsla í eineltismáli sé hafin.
 7. Þetta athugunarferli á í mesta lagi að taka eina viku.

Annað þrep – Úrvinnsla

Að viku liðinni kemur eineltisteymi skólans saman og fer yfir niðurstöður. Ef í ljós kemur að um einelti er að ræða eru næstu skref ákveðin.

 1. Gerð er grein fyrir meintum þolendum og gerendum og markmið sett.
 2. Foreldrar gerenda eru boðaðir á fundi hjá umsjónarkennara og einum aðila úr eineltisteymi skólans sem fer yfir skriflega tilkynningu og lýsingu á eineltinu.
 3. Foreldrar þolanda eru upplýstir um framvindu málsins.
 4. Foreldrar í viðkomandi bekkjardeild eru upplýstir um að eineltismál hafi komið upp og að vinna samkvæmt eineltisáætlun skólans sé komin í gang.
 5. Umsjónarkennari tekur einstaklingsviðtöl við þolanda og aðili úr eineltisteymi skólans við gerendur þrisvar yfir 5 vikna tímabil.
 6. Á því tímabili geta gerendur og þolendur hist á sameiginlegum fundi ásamt umsjónarkennara, stuðningsaðila og foreldrum ef það er talið ákjósanlegt.
 7. Stöðufundur eineltisteymis er haldinn eftir 4 vikur til að meta úrvinnslu málsins.
 8. Umsjónarkennari ræðir við bekkinn á fundi þar sem skoðað er hvar hver og einn getur lagt af mörkum til að laga ástandið og vinnur með bekknum að bættum samskiptum. Nemendur viðkomandi bekkjarhóps/ hópa fá fræðslu til að efla færni þeirra í að velja rétta afstöðu ef þau verða vör við einelti.
 9. Skólinn endurmetur hvort betrumbæta þurfi skólabrag með sérstökum aðgerðum
 10. Þessi vinna skal ekki taka meiri tíma en einn mánuð.

Þriðja þrep – Eftirfylgni

 1. Mánuði eftir að vinnu lýkur hitti umsjónarkennari þolanda og gerendur og fylgir árangri eftir.
 2. Foreldrar þolanda og gerenda eru upplýstir um árangur.
 3. Eineltisteymi skólans ákveður hvort markmið hafi náðst í málinu og sé svo er því lokað formlega í samráði við foreldra viðkomandi nemenda. Sé ekki svo eru ákvarðanir teknar um framhaldið.
 4. Foreldrar í bekkjardeildinni eru upplýstir um að vinnu skv. eineltisáætlun sé lokið.
 5. Rætt er við nemendur um árangur vinnunnar.
 6. Umsjónarkennari er áfram vakandi yfir samskiptum í viðkomandi bekk/bekkjum.

Eftirfylgni með gerendum heldur áfram og ef þurfa þykir er þeim, ásamt foreldrum, bent á frekari aðstoð með sinn persónulega vanda. Eftirfylgni með þolanda heldur áfram og fylgst með því að hann fái tækifæri til að ræða líðan sína og sé öruggur í skólanum.