Jafnréttisáætlun Tálknafjarðarskóla 2019-2020

Markmið:

  • Að fylgja því eftir að allir eigi jafnt tilkall til sömu mannréttinda án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.
  • Að hlúa að heilbrigðum þroska í hvers barns.
  • Að gera börnum kleift að nýta hæfileika sína.
  • Að hjálpa börnum að þróa þá færni sem þau þurfa til að leggja sitt af mörkum í samfélaginu.

 

Jafnrétti og mannréttindi sérhvers einstaklings eru stór þáttur í vinnu skólans við útfærslu þessara markmiða.

Í Aðalnámsskrá grunnskóla frá 2011 má finna ákvæði sem fjalla um jafnrétti og þar segir:

  • Markmið jafnréttismenntunar er að skapa forsendur fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýni og jafnréttis. Í skólastarfi skulu allir taka virkan þátt í að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis. Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra. (Aðalnámsskrá grunnskóla 2011 . almennur hluti bls :19-20)
  • Jafnframt segir í Aðalnámsskrá að jafnréttismenntun vísi í senn til inntaks kennslunnar, námsaðferðanna og námsumhverfisins í skólanum. Mikilvægt er fyrir skólann að skilgreina starf sitt reglulega út frá jafnréttisviðmiðum og skoða hvar má bæta og þróa, bæði kennsluefni og jafnrétti nemenda og þeirra sem starfa við skólann til að hafa áhrif á skólastarfið, stefnumótun og ákvarðanatöku.

 

Tálknafjarðarskóli leggur áherslu á að slík mannréttinda og jafnréttisstefna sé virk í skólastarfinu jafnt meðal starfsfólks sem nemenda. Mikilvægt er því að á öllum skólastigum hljóti nemendur fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a.er lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu.

Jafnréttisáætlun Tálknafjarðarskóla tekur bæði til nemenda og starfsfólks.

 

Ábyrgð

 

Tálknafjarðarskóli starfar eftir jafnréttisviðmiðum við stjórnun skólans og eru allir kennarar og starfsmenn skólans í því sem nefnist flöt stjórnun. Þeir eru því samábyrgir ásamt skólastjóra fyrir endurskoðun og framkvæmd jafnréttisáætlunar og sitja allir í jafnréttisnefnd skólans.

Mikilvægt er því að í öllu starfi skólans jafnt í kennslu sem í öðrum samskiptum séu ákvæði jafnréttislaga höfð í huga og er öll kynbundin mismunun bæði meðal starfsfólks og nemenda óheimil.

 

Starfsfólk

 

Í stjórnarskrá landsins er tekið skýrt fram að konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna. Allir starfsmenn skólans eiga því að hafa jafna möguleika á að þroska hæfileika sína í starfinu og skal virðing borin fyrir ólíkum skoðunum.

 

Jafnrétti til launa og starfa.

 

Konur og karlar skulu fá greidd jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Allir starfsmenn skulu eiga jafnan rétt á endurmenntun og starfsþjálfun. Allir starfsmenn hafa jafnan rétt til að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku innan skólans.

Einnig sé tekið mið af jafnréttissjónarmiðum við ráðningu nýrra kennara og starfsmanna þegar ráðið er störf og reynt að ráða það kyn sem á hallar þegar tveir jafnhæfir einstaklingar sækja um.

 

Samræming fjölskyldu og atvinnulífs.

 

Við stjórnun skólans skulu hlutaðeigandi leitast við að gera öllum starfsmönnum kleift að samræma skyldur sínar í starfi við skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanleika í skipulagi á vinnu og vinnutíma.

 

Kynbundin og kynferðisleg áreitni.

 

Stjórnendur skólans á hverjum tíma eru ábyrgir fyrir því að kynbundin og kynferðisleg áreitni og einelti viðgangist ekki innan stofnunarinnar.Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt. Áætlun um viðurlög slíkrar hegðunar sé virkjuð ef starfsmaður verður uppvís að kynferðislegri áreitni eða eineltishegðun gagnvart samstarfsfélaga.

 

Nemendur.

Jafnrétti er einn af grunnþáttum menntunar skv. nýrri menntastefnu. Jafnrétti sem grunnþáttur felur í sér áherslur í skólastarfi sem snúa að jafnréttisfræðslu og starfsháttum í skóla sem miða að virkri þátttöku nemenda, óháð kyni og öðrum þáttum, til að þeir fái tækifæri til að njóta hæfileika sinna og hæfni án allrar mismununar.

Mikilvægt er að jafnrétti sé haft að leiðarljósi í öllum samskiptum við nemendur og í samskiptum þeirra sín á milli og að á öllum skólastigum fái nemendur fræðslu um jafnréttismál.

 

Viðhorf kennara eru mikilvæg í jafnréttisvinnu skóla. Kennarar skólans þurfa að gera sér grein fyrir áhrifum sínum og átta sig á mikilvægi eigin orðræðu, t.d. hve kynjuð hún er. Mikilvægt er að í skólastarfinu komi jafnréttisstefna skólans fram í verki og að nemendur taki þátt í þeirri vinnu. Setja má góð fordæmi eins og t.d. að hafa kynjahlutfall jafnt í nemendaráði skólans. Mismunum nemenda á grundvelli kyns er óheimil í starfi skólans.

 

Í jafnréttismenntun skólans þarf fræðslan að vera út frá ýmsum sjónarhornum og taka á þáttum eins og kyni og kynhneigð, fötlun, fjölmenningu, staðalmyndum, atvinnu, félagslegri stöðu og völdum í þjóðfélaginu. Jafnréttisfræðsla er þverfagleg og nýtist í öllu skólastarfinu.

Mikilvægt er að ýta undir að nemendur rækti með sér samkennd og virðingu fyrir skoðunum, tilfinningum og gildum annarra og að þeir hugi að sinni eigin orðræðu og viðhorfum í samskiptum sín á milli. Kynbundið eða kynferðislegt áreiti verður ekki liðið meðal nemenda Tálknafjarðarskóla.

 

Í lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla frá 2008 segir.um menntun og skólastarf.: Kynjasamþættingar skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla og uppeldisstarfi,(23gr.)

Í skólanum á að fara fram menntun til jafnréttis þannig að nemendur geri sér grein fyrir hvernig ýmsir þættir geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks. Námsefni það sem lagt er fyrir nemendur sé skoðað út frá jafnréttissjónarmiði og námsgögn samræmist mannréttinda og jafnréttismarkmiðum skólans. Kennarar ræði sérstaklega námsefni og kennsluhætti sína a.m.k.út frá jafnréttisstefnunni einu sinni á vetri til að vekja og viðhalda meðvitund starfsfólks um jafnrétti í skólanum.

 

Jafnréttisáætlun Tálknafjarðarskóla byggir á:

  • Aðalnámsskrá grunnskóla frá 2011
  • Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 10. desember 1948.
  • Heimasíðu Jafnréttisstofu – jafnretti.is
  • Lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008