Kæru foreldrar og forráðamenn

Rétt í þessu fengu skólar að vita um harðar aðgerðir varðandi skólahald sem öllum skólum á landinu ber að fara eftir og er um samræmdar aðgerðir að ræða burtséð frá landfræðilegri staðsetningu. Um er að ræða mikla röskun á skólastarfi og þurfum við því að blása til starfsdags á morgun mánudaginn 16. mars til að endurskipuleggja skólastarfið í heild sinni. Það er því enginn skóli á morgun fyrir nemendur, hvorki í leik- né grunnskóla. Ég mun senda út tilkynningu til ykkar á morgun í lok vinnudags um hvernig skólastarfi verður haldið úti og skipulag næstu daga/vikna.

Meðal þeirra tilkynninga sem ég hef fengið kom eftirfarandi fram:
Í þeim samfélagslegu aðstæðum sem nú eru leggur Samband íslenskra sveitarfélaga höfuðáherslu á að fylgja í einu og öllu fyrirmælum opinberra aðila sem stýra aðgerðum til varnar útbreiðslu COVID veirunnar. Föstudaginn 13. mars 2020 settu sóttvarnarlæknir, fulltrúi almannavarna, forsætisráðherra, menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra fram tilmæli um skipulag skólahalds næsta mánuðinn vegna stöðunnar. Sveitarfélögin í landinu sameinast um að samræma aðgerðir í skipulagi skóla- og frístundastarfs fyrir þetta tímabil eins og kostur er. Skóla- og frístundastarf mun fara fram með takmörkunum. Leikskólar og grunnskólar sinna börnum og unglingum sem eru viðkvæmustu hópar samfélagsins og því þarf að huga vel að virkni þeirra og vellíðan. Þá ber að hlúa að starfsfólki sem starfar innan skóla- og frístundastarfs en þessi hópur sinnir mikilvægum störfum í í samfélaginu. Samband íslenskra sveitarfélaga fylgist vel með þeim breytingum sem kunna að verða á takmörkunum á skólahaldi. Við tökum höndum saman svo að allt starf geti farið fram af yfirvegun og æðruleysi.

Kveðja

Birna Friðbjört S. Hannesdóttir

Skólastjóri