Áfallaáætlun Tálknafjarðarskóla

Inngangur

Hverjum grunnskóla er skylt að hafa áfallaáætlun sem starfað er eftir þegar á þarf að halda. Þessi áfallaáætlun gerir grein fyrir því : Hverjir bera ábyrgð á og starfa í áfallaráði Tálknafjarðarskóla. Hvernig upplýsingagjöf er háttað innan skólans og til almennings ef slys eða önnur áföll bera að höndum. Hvernig gátlisti aðgerðaráætlunar er virkjaður og hvernig honum er fylgt eftir innan skólans. Hverning áætlunin er yfirfarin og endurskoðuð. Áætluninni fylgja gátlistar fyrir aðgerðir.

Áfallaráð skólans, hlutverk og stjórnun þess

Við Tálknafjarðarskóla eru allir kennarar og starfsfólk skólans samábyrg gagnvart skólastarfinu þó svo skólastjóri beri mestu ábyrðina. Samkvæmt þessum stjórnunarháttum eru allir kennarar og leiðbeinendur skólans í áfallaráði, auk skólahjúkrunarfræðings (og sóknarprests eða annars sálgæsluaðila, sé þess óskað). Skólastjóri er í forsvari fyrir áfallaráð auk eins kennara. Þeir bera ábyrgð á og kalla saman áfallaráð auk þess að stjórna aðgerðum og verkferlum. Hlutverk ráðsins felst t.d. í forvörnum og skipulagðri forvinnu. Það sér um að móta vinnureglur um hvernig bregðast skuli við áföllum. Vinnureglur ráðsins eru endurskoðaðar og yfirfarnar á starfs og undirbúningsdögum skólans að vori. Áfallaáætlun skólans er kynnt starfsmönnum árlega að hausti. Áfallaráð leiðbeinir kennurum og starfsfólki skólans og vísar á efni og bækur sem fjalla um áföll og úrvinnslu þeirra. Ef áfall verður innan skólasamfélagsins, kalla forsvarsmenn ráðsins áfallaráð saman og vinna að því að skipuleggja viðbrögð skólans. Áfallaráð er bundið trúnaði um öll mál sem það kemur að. Sími skólans: 456-2537

Forsvarsmenn áfallaráðs skólans eru Birna Friðbjört S. Hannesdóttir, skólastjóri og Guðlaug A. Björgvinsdóttir

Aðgerðaráætlun virkjuð

Áætlun þessi tekur til eftirfarandi áfalla sérstaklega:

 • Langvinnir sjúkdómar og veikindi nemenda/aðstandenda/starfsmanna
 • Alvarleg slys nemenda/ forráðamanna /stafsmanna utan skólatíma.
 • Minniháttar slys nemenda á skólatíma.
 • Alvarleg slys nemenda/starfsmanna skóla á skólatíma.
 • Andlát nemanda/starfsmanns/aðstandenda nemanda.
 • Náttúruhamfarir og stórslys.       

(Gátlistar fyrir viðbrögð og aðgerðir eru í síðasta kafla áætlunarinnar)

Fyrstu viðbrögð:

 • Sá starfsmaður sem fyrstur fær upplýsingar um slys/áfall kemur þeim upplýsingum til forsvarsmanna áfallaráðs.
 • Forsvarsmenn áfallaráðs staðfesta að upplýsingar séu réttar og kalla síðan ráðið saman á fund.
 • Áfallaráð virkjar aðgerðaráætlun og hefur upplýsingagjöf

Upplýsingagjöf

Hvaða upplýsingar á að veita?

Áfallaráð fundar um áfallið eftir að það hefur verið staðfest og í kjölfar þess hefst vinna við fyrstu upplýsingagjöf vegna þess. Forsvarsmenn áfallaráðs hafa samband við fjölskyldu hins slasaða/látna og votta samúð fyrir hönd skólans og ræða óskir fjölskyldu varðandi upplýsingar. Mikilvægt er að huga vel að því hverju viðkomandi fjölskylda óskar eftir í þessu ferli og virða það. Umsjónarkennari viðkomandi nemanda athugar hvort nemandinn á náinn ættingja innan skólans sem þarf að fá fregnina sérstaklega, sé um nemanda að ræða og einnig ef um starfsmann er að ræða. Áfallaráð hefur samband við sálgæsluaðila, sé þess óskað, og ákveða samstarf vegna málsins.

Á fundi áfallaráðs þarf að hafa eftirfarandi í huga:

 • Hvernig á að haga næsta skóladegi.
 • Hvernig getur skólinn minnst hins látna ef um andlát er að ræða.
 • Hvernig best er að sinna bekkjarsystkinum.
 • Hvort og hvert á að leita utanaðkomandi aðstoðar fyrir nemendur og starfsfólk.
 • Ef um dauðsfall er að ræða, hvernig getur skólasamfélagið stutt fjölskyldu hins látna.

Hvernig upplýsingum er komið til skila:

 • til nemenda
  • Skólastjórnandi tilkynnir um málið við upphaf skóladags sé það ákveðið. Umsjónarkennari viðkomandi bekkjar tilkynnir um málið í sínum bekk þegar allar upplýsingar eru komnar fram, sé það ákveðið. Treysti hann sér ekki að greina frá atburðinum einn, getur hann farið fram á að sálgæsluaðili sé með honum og/eða aðrir kennarar og starfsmenn. Mikilvægt er að huga vel að nemendum í kjölfar slíkra upplýsinga og fylgjast með líðan þeirra. Óski nemandi eftir stuðningi foreldra er haft samband við þá
 • til foreldra
  • Forsvarsmenn áfallaráðs sjá um að hafa samband við foreldra og forráðamenn nemenda með tölvupósti eða símleiðis og tilkynna um málið. Mikilvægt er, hafi slys/andlát átt sér stað á skólatíma, að enginn nemandi fari heim án þess að foreldrar hafi fengið upplýsingar. Ef um andlát er að ræða skal koma fram í bréfi til forráðamanna : Hver hinn látni er og hvenær dauðsfallið átti sér stað. Fáein orð um algengustu viðbrögð barna við sorg og missi. Upplýsingar um hvernig skólinn hyggst bregðast við. Beiðni til forráðamanna um að efni bréfsins eigi ekki að fara inn á samfélagsmiðla.
 • til starfsfólks
  • Forsvarsmenn áfallaráðs hafa samband við alla starfsmenn skólans ef áfallið skeður utan skólatíma. Boðaður er fundur áfallaráðs. Forsvarsmenn áfallaráðs hafi samband við þá starfsmenn sem eru frá vinnu og láti þá vita af atburðinum. Ef áfallið verður á skólatíma er starfsfólki skólans tilkynnt um málið í næsta hléi og þeir upplýstir um viðbrögð og ferli. Starfsfólki er boðin áfallahjálp og viðtal við sálgæsluaðila óski þeir þess
 • til almennings/fjölmiðla
  • Sýni almenningur eða fjölmiðlar áhuga á málinu skal vísa á þann fyrirsvarsmann áfallaráðs sem er í skólastjórn.

 

Eftirfylgd

Nemendur

Áframhaldandi stuðningur er nauðsynlegur inni í skólastarfið eftir áfall. Kennarar, einkum umsjónarkennarar bekkja, þurfa að undirbúa sig fyrir það að nemendur vilji ræða um það sem skeði og sýni merki streitu. Mikilvægt er að nemendur geti tjáð tilfinningar sínar og hafi aðgang að sálgæslu utanaðkomandi aðila sé þess óskað.

Starfsfólk

Einnig þurfa starfsmenn að gæta að eigin líðan. Mikið álag fylgir því ferli sem fer í gang við áfall og gæti verið stuðningur fyrir kennarasamfélagið að bæta við stuttum fundi í lok dags til að ræða málin og þau ferli sem eru í gangi stuttu eftir atvikið. Huga þarf að sálgæslu starfsfólks og þarf einhver slíkur stuðningur að vera í boði innan skólans. Hjúkrunarfræðingur myndi þá halda utanum þá vinnu, og þá aðila sem koma að henni. Einnig þarf að skrá niður og ræða um atburðinn, hafi hann skeð á skólatíma,til að meta viðbrögð og læra af því. Áfallaráð haldi utan um þá stuðningsvinnu sem fer í gang innan skólans

Áfallaáætlun yfirfarin og endurskoðuð

Áfallaáætlun sé yfirfarin af áfallaráði í kjölfar alvarlegs áfalls innan skólasamfélagsins. Verkferlar skoðaðir og athugað hvort þeir gengu upp og hverju þarf að breyta. Áfallaáætlun sé endurskoðuð og uppfærð á starfsdögum í júní ár hvert.

AÐGERÐAÁÆTLUN/ gátlisti

Minniháttar slys á skólatíma
 1. Huga að barninu og veita fyrstu hjálp.
 2. Biðja starfsmann að hringja í foreldri sé þess þörf.
 3. Foreldri beðið um að sækja barnið og meta hvort þörf sé á læknisaðstoð.
 4. Náist ekki strax í foreldri, fari starfsmaður með barnið á sjúkrastofnun og bíði þar uns foreldri kemur.
Langvinnir sjúkdómar og alvarleg slys nemenda/aðstandenda/starfsmanna utan skólatíma
 1. Umsjónarkennari greinir starfsfólki og nemendum frá því ef einhver úr þeirra hópi þarf að vera langdvölum frá skóla/starfi vegna slyss eða alvarlegra veikinda.
 2. Umsjónarkennari greini viðkomandi bekk og starfsmönnum skólans frá því ef alvarleg veikindi koma upp í fjölskyldu nemanda eða hann orðið fyrir slysi. Haft er samráð við viðkomandi fjölskyldu um upplýsingar og hjúkrunarfræðingur skólans látinn vita, sé þess óskað.
 3. Leitað sé leiða til að styðja viðkomandi nemanda/starfsmann eins og hægt er.
 4. Umsjónarkennari sé í sambandi við fjölskyldu nemanda og fylgist þannig með líðan og horfum og greini samkennurum og starfsfólki frá því reglulega.
Alvarleg slys nemenda/starfsmanna á skólatíma
 1. Hringja í 112 og gefa upp staðsetningu og eðli vandans. Jafnframt að hlúa að þeim slasaða og veita fyrstu hjálp með leiðbeiningu frá 112 neyðarlínu.
 2. Fjarlægja nemendur af slysstað.
 3. Starfsmaður fari með sjúkrabíl og bíði með hinum slasaða uns aðstandendur koma á staðinn.
 4. Ef um lífshættulegt slys eða meðvitundarleysi er að ræða skal biðja starfsmann á slysadeild að tilkynna slysið til aðstandenda.
 5. Ef um alvarlegt slys er að ræða sem er þó ekki lífshættulegt hringi tengiliður áfallaráðs í aðstandendur og veiti þeim upplýsingar um eðli málsins og hvert farið var með þann slasaða.
 6. Ef um bak eða höfuðáverka er að ræða hjá starfsmanni skal alltaf láta maka/aðstandenda vita af slysinu þó ekki sé farið á sjúkrastofnun.
 7. Ef um alvarlegt slys er að ræða í vettvangsferð bekkjar gildir það sama og í grein 1-3, en einnig er hringt í starfsmenn skóla og þeir beðnir að koma og taka við hópi nemenda og koma þeim í skólann.
 8. Nemendum sem verða vitni að alvarlegu slysi er veitt áfallahjálp og forráðamönnum þeirra greint frá málinu samdægurs. Tengiliðir áfallaráðs geri það.
 9. Starfsmönnum sem verða vitni að alvarlegu slysi sé boðin áfallahjálp.
 10. Áfallaráð kallað saman
 11. Æskilegt er að fá ráðleggingar skólahjúkrunarfræðings eða prests við áfallahjálp og sálgæslu nemenda eftir atvikið. Áfallaráð geri það.
 12. Slysaskýrsla skrifuð. Atvik tilkynnt til Vinnueftirlits sé um starfsmann að ræða.
 13. Fundur haldinn um atburðinn og viðbrögð til að meta og læra af.
 14. Nemendum sé greint formlega frá slysinu á sal næsta dag og þeir upplýstir um líðan viðkomandi á uppbyggjandi hátt til að minnka streitu.
 15. Foreldrum og forráðamönnum sé formlega greint frá atburðinum með bréfi.

 

Andlát nemanda/starfsmanns á skólatíma
 1. Áfallaráð kallað saman.
 2. Kallað sé til lögreglu og prest sem sjá um að aðstandendur fái réttar upplýsingar um málið áður en fjölmiðlar fjalla um það.
 3. Sýni fjölmiðlar málinu áhuga skal vísa á skólastjóra.
 4. Þess er gætt að náin skyldmenni hins látna sem eru við nám eða störf í skólanum hafi fengið fréttina áður en öðrum er tilkynnt um andlátið.
 5. Starfsfólki skólans sé tilkynnt um andlátið í næsta hléi og réttar upplýsingar gefnar um tildrög.
 6. Sé um sjálfsvíg að ræða skal biðja fjölskyldu hins látna leyfis hvort að segja á frá því þegar andlátið er tilkynnt skólasamfélaginu.
 7. Umsjónarkennari tilkynni andlátið í sínum bekk ef um nemanda er að ræða. Ef um starfsmann skóla er að ræða sé nemendum viðkomandi kennara tilkynnt andlátið sérstaklega. Ef umsjónarkennarar og/eða fulltrúar áfallaráðs treysta sér ekki til að greina einir frá atburðinum, geta þeir kallað til annan fulltrúa úr áfallaráði eða prest/sálgæsluaðila til að vera viðstaddir.
 8. Bréf skólastjóra til foreldra og forráðamanna í skólanum er sent og þess gætt að fara fram á það að efni bréfsins fari ekki út á samfélagsmiðla.
 9. Fylgst sé vel með nemendum samdægurs og bekkjarkennarar séu með sínum bekk og hugi að nemendum, líka í frímínútum. Börnum sé gefinn tími til að spyrja spurninga og sýna viðbrögð. Starfsmenn og/eða sálgæsluaðilar sem kallað er til geta haft kyrrðarstund og beðið með nemendum og rætt atburðinn.
 10. Reynt sé að halda uppi eins eðlilegu skólastarfi og hægt er.
 11. Skólinn sendi viðkomandi fjölskyldu strax samúðarkveðju og blóm fyrir hönd kennara og starfsfólks.
 12. Skólastjóri ásamt umsjónakennara og fulltrúa úr áfallaráði fari í útförina sem fulltrúar skólasamfélagsins.
 13. Nemendur geti fengið aðstoð við að skrifa minningargrein óski þeir þess. Einnig geta þeir sent samúðarkveðju til aðstandenda.
 14. Nemendur kunna að vilja fara til jarðarfararinnar. Í slíkum tilvikum er rétt að fá prest til þess að fræða nemendur um útförina og búa þá undir stundina. Einnig er mögulegt og jafnvel æskilegra að prestur eigi sérstaka helgistund með nemendum við kistu í kirkjunni á undan athöfninni sjálfri. Gott er að minnast þess að jarðaför er erfið reynsla fyrir vini og samnemendur og oft fyrsta upplifun af því tagi.
 15. Áfallaráð sé leiðandi í skipulagi þeirrar stuðningsvinnu sem fer í gang í kjölfar andlátsins.
 16. Sé um sjálfsvíg nemanda að ræða skal fara í vel undirbúið forvarnar og stuðningsstarf með vinum og bekkjarsystkinum hins látna sem fyrst. Áfallaráð skipuleggur hvernig staðið sé að því.
Stórslys/náttúruhamfarir
 1. Skólastjóri/forsvarsmenn áfallaráðs afli upplýsinga um það á hvern hátt atburðurinn tengist skólanum og hverjar almennar varúðarráðstafanir séu fyrir skólann.
 2. Aflað sé upplýsinga hjá viðeigandi stofnun
 3. Áfallaráð kallað saman til fundar og greint frá viðbragðsáætlun skóla.
Bækur um sorg og sorgarviðbrögð:

Sorg barna. Höf.Bragi Skúlason

Von, bók um viðbrögð við missi. Höf. Bragi Skúlason