Grunnskólanemendur Tálknafjarðarskóla tóku að sér fjöruhreinsun fyrir Arnarlax í vikunni og stóðu sig virkilega vel. Nemendur hreinsuðu fjöruna frá Hrauni að Felli. Alls hreinsuðu nemendur samtals 200 kg af rusli. Virkilega vel af sér vikið.

Hreinsun fjöru er hluti af grænfánastarfi skólans en markmið grænfánaverkefnisins er að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla. Sjálfbærnimenntun snýst um að skapa ábyrga samfélagsþegna, sem saman vinna að því markmiði að finna leiðir og aðgerðir til að allir Jarðarbúar geta lifað góðu lífi án þess að það bitni meira á móður Jörð en það hefur nú þegar gert. Virkni nemenda, gagnrýnin hugsun, langtímahugsun, framtíðarsýn, samvinna og þekking á málefnunum skipta þar miklu máli.