Fréttir

Uppskeruhátíð og úrslit í Landsbyggðavinaverkefni

Opið hús í Tálknafjarðarskóla

Fimmtudaginn 9. maí, kl. 17:00- 18:00

 

Fimmtudaginn 9. maí býður 9.-10. bekkur foreldrum, systkinum, kennurum, sveitarstjórnarmönnum, atvinnurekendum, launþegum og öllum áhugasömum að koma og fylgjast með úrslitakeppni um verkefni Landsbyggðavina sem nemendur gerðu til að fegra, breyta og bæta bæinn sinn, Tálknafjörð. Kynningin fer fram í bekkjarstofu nemendanna og hefst kl 17.00.

Fríða Vala Ásbjörnsdóttir formaður Landsbyggðavina mun heiðra okkur með nærveru sinni. Auk hennar koma þeir Páll Líndal, Ph.D í umhverfissálfærði, stundakennari við HÍ og Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson Ph.D. í lífrænni efnafærði, dósent við HÍ. Páll og Benjamín munu sitja í dómnefnd auk fulltrúa atvinnulífsins á Tálknafirði.

 

Nánar um verkefnið:

Í vetur hafa nemendur í 9. og 10. bekk Tálknafjarðarskóla tekið þátt í verkefni Landsbyggðavina: Framtíðin er núna. Nemendur hafa hugleitt hvaða tækifæri og auðlegð býr í þessu litla þorpi og fallegu umhverfi Tálknafjarðar.

 • Fyrir jól skiluðu nemendur einstaklingsritgerðum um hvað þau vildu gera til að breyta og bæta mannlíf og umhverfi á Tálknafirði. Ritgerðin Þyrlupallur á Tálknafirði náði 4. sæti á landsvísu í ritgerðarsamkeppni Landsbyggðavina.
 • Í seinni hlutanum unnu nemendur saman 2, 3 eða 4, en sumir kusu að vinna einir. Nú var verkefnið þeirra að vinna með allar þær hugmyndir sem fram höfðu komið í fyrri hluta verkefnisins og bæta við nýjum.
 • Í apríl voru undanúrslit þar sem allir kynntu verkefnin sín. Þrjú verkefni komust í úrslit:
  • Þyrlupallur á Tálknafirði
  • Jörðmynd
  • Hjólabrettagarður á Tálknafirði.

Vonumst til þess að sjá sem flesta.

Tálknafjarðarskóli

Tálknafjarðarskóli auglýsir lausar stöður umsjónarkennara og stuðningsfulltrúa

Skólinn er samrekinn leik-, grunn- og tónlistarskóli undir einu þaki. Í skólanum eru um 50 nemendur. Tálknafjörður er afar fallegur fjörður sem þekktur er fyrir einstaka veðurblíðu. Íbúarnir eru miklir íþróttaálfar og státar þorpið af glæsilegri íþróttamiðstöð með tækjasal, 25m sundlaug og fjöldann allan af skipulögðum íþróttatímum. Atvinnulíf er með miklum blóma og uppbygging fiskeldis og ferðaþjónustu á svæðinu býður upp á mikil tækifæri.

Í Tálknafjarðarskóla eru lausar til umsóknar eftirfarandi stöður:

Tvær stöður umsjónarkennara á grunnskólastigi (100% starf). Fjölbreytt og skemmtileg störf sem fela m.a. mögulega í sér list- og verkgreinakennslu.

Menntunar- og hæfniskröfur:

 • Kennaramenntun og réttindi til kennslu í grunnskóla
 • Metnaður til að vinna eftir fjölbreyttum og árangursríkum kennsluaðferðum
 • Lipurð og hæfni í mannlegum samskiptum
 • Frumkvæði, sjálfstæði og sveigjanleiki í vinnubrögðum
 • Reglusemi og samviskusemi
 • Hefur hreint sakarvottorð

 

Starf stuðningsfulltrúa/starfsmanns í skóla með stuðning (100% starf) í fjölbreytt starf með öllum nemendum skólans auk þess að hafa umsjón með lengdri viðveru (frístund) 1.-4. bekkjar 5 daga vikunnar eftir að kennslu lýkur í skólanum.

Leitað er að einstaklingi sem:

 • Hefur áhuga á vinnu með börnum og á auðvelt með samskipti við börn
 • Hefur til að bera góða samskiptahæfni
 • Hefur virðingu, jákvæðni, metnað, gleði og umhyggju að leiðarljósi
 • Er reglusamur og samviskusamur
 • Hefur hreint sakarvottorð

 

Karlar jafnt sem konur eru hvött til að sækja um störfin.

Ráðið verður í stöðurnar frá 1. ágúst 2019.

 

Upplýsingar gefur Birna Hannesdóttir skólastjóri í síma 456-2537, 868-3915.

Senda skal umsókn og ferilskrá á netfangið skolastjori@talknafjordur.is og verður móttaka umsókna staðfest.

 

Umsóknarfrestur er til og með 17. maí 2019

Hreyfimánuður Tálknafjarðarskóla

Hreyfimánuður Tálknafjarðarskóla er í fullum gangi og verður til loka þessa skólaárs. Í þessum mánuði hvetjum við nemendur og starfsfólk til að koma gangandi eða hjólandi í skólann. Við minnum sérstaklega á að muna eftir hjálmi ef komið er á hjóli.

Hvatning ykkar kæru foreldrar og forráðamenn skiptir öllu máli. Setjum nemendum skólans gott fordæmi því það er besta gjöfin.

Stóri plokkdagurinn

Stóri plokkdagurinn var haldinn um allt land í dag sunnudaginn 28.apríl. Á þessum degi eru allir hvattir til þess að fara út og plokka eða týna rusl í sínu nærumhverfi. Það er hópurinn Plokk á Íslandi sem stendur fyrir deginum.

Grænfánanefnd Tálknafjarðarskóla bauð íbúum á Tálknafirði að þátt í þessu verkefni í blíðskaparveðri í dag og íbúar létu ekki sitt eftir liggja, en um 60 manns mættu til þess að plokka.

Hópurinn plokkaði eftir fjörunni á innanverðum Oddanum og eftir plokkið bauð Tálknafjarðarhreppur upp á kaffi og léttar veitingar við skólann.

Gleðilegt sumar

Nú er sumardagurinn fyrsti að ganga í garð og því verður frí í skólanum þann dag, fimmtudaginn 25. apríl.

Föstudaginn 26. apríl er einnig starfsdagur í skólanum og engin skóli þann dag.

 

Við í Tálknafjarðarskóla óskum ykkur gleðilegs sumars og vonum að fjölskyldan njótið þessara frídaga saman.

Birna Hannesdóttir nýr skólastjóri Tálknafjarðarskóla

„Hlutirnir hafa tilhneigingu til að reddast“ og það á svo sannarlega við í stóra skólastjóramálinu í Tálknafjarðarskóla. Nú hefur þriðji skólastjórinn verið ráðinn við skólann á þessu skólaári og megi hið fornkveðna um að „allt er þegar þrennt er“ sannast. Sveitarfélagið datt aldeilis í lukkupottinn því um stöðu skólastjóra sóttu tveir vel menntaðir og hæfir einstaklingar, úr vöndu var að ráða en niðurstaðan er að ráða Vestfirðinginn Birnu Friðbjörtu S. Hannesdóttur. Birna er kennaramenntuð, hefur lokið MLM námi í forystu og stjórnunarfræðum og mun í júní ljúka 30 eininga diplómanámi í stjórnun menntastofnana. Þar að auki hefur hún bakkalárgráðu í ferðamálafræðum með áherslu á stjórnun. Birna hefur lokið mörgum áhugaverðum námskeiðum er varða skólahald, þar með talið námskeiði í agastjórnun sem við teljum reyndar að reyni ekki mikið á þar sem börnin í Tálknafjarðarskóla eru með eindæmum kurteis og prúð.

Birna mun hefja störf þegar í stað og mætir galvösk í skólann strax að loknu páskafríi.

Niðurstöður samræmdra prófa í 9. bekk sýna að Birna tekur við góðu búi, nemendur stóðu sig vel og sýndu góðar framfarir, í nærri helming prófa sýndu nemendur meiri eða talsvert meiri framfarir en almennt gerðist á landsvísu.

Bryndís Sigurðardóttir,

sveitarstjóri

Stóra upplestrarkeppnin

Stóra upplestrarkeppnin í Vesturbyggð og Tálknafirði fer fram í Tálknafjarðarkirkju mánudaginn 1. apríl kl. 17.00.  Keppendur verða nemendur í 7. bekk frá Bíldudalsskóla, Patreksskóla og Tálknafjarðarskóla. Tónlistaratriði og veitingar.

Allir innilega velkomnir

Öskudagsfagnaður 6. mars

Nemendur mega mæta í búningum í skólann og skóla líkur svo á morgun Öskudag 6. mars strax eftir mat um 12.30
Foreldrafélagið stendur fyrir skemmtun í íþróttahúsinu kl. 17:00 
Kötturinn verður sleginn úr tunnunni, leikir, dansað og skemmt sér. 
Verðaun verða veitt fyrir flottasta búninginn og frumlegasta búninginn.
Aðgangseyrir 500 krónur.

Konudagurinn 22.feb. kl 8:30. Mömmur, ömmur og frænkur velkomnar í kaffi

Konudagurinn er 24. febrúar, fyrsti dagur Góu en í skólanum höldum við upp á daginn föstudaginn 22. febrúar. Mömmur og ömmur og frænkur eru velkomnar í kaffi og með því í skólanum kl. 8.30. Gott tækifæri til að hittast, skoða, spjalla og spyrja.  Hjartanlega velkomnar

Niðurstöður úr Skólapúlsinum 10. feb. 2019

Nemendakönnun skólapúlsins 2018-2019 sýnir að einelti er minna en árin tvö þar á undan. Nú eru 2 af 22 sem upplifa einelti en voru 6 af 44 í fyrra og 6 af 42 árið þar á undan. 

Fram kemur að agi í tímum þykir góður, samband við kennara einnig gott sem og virkni nemenda í tímum.

Þetta er heldur betra en var og á réttri leið og engin óeðlileg frávik miðað við landið í heild.

Þorrablót Tálknafjarðarskóla 30. janúar

Þorrablót Tálknafjarðarskóla verður miðvikudaginn 30. janúar í íþróttahúsinu milli kl. 11.30 og 12.30. 

10. bekkur verður með annál og auk þess aðrir bekkir með þjóðleg skemmtiatriði. Að því loknu verður borðað. Það verður þjóðlegur matur, s.s. saltkjöt, slátur, sviðasulta, harðfiskur og hákarl í boði fyrir nemendur. Það er áskorun að prófa hinn þjóðlega mat.  Forráðamenn eru velkomnir. Hlökkum til að sjá ykkur!

Bóndadagurinn 25. jan. Afar, pabbar og frændur velkomnir í kaffi

Eins og hefð er fyrir þá býður skólinn pöbbum, öfum og frændum í kaffi kl 8.30 og eitthvað meðlæti. Þá gefst tækifæri til að skoða, spjalla og spyrja. Bóndadagurinn markar upphaf þorra. Konudagurinn sem er fyrsti dagur góu er síðan á svipuðum nótum en fyrir konurnar.

Vinna við nýja skólastefnu fyrir Tálknafjarðarskóla að hefjast

21. jan. 2019

Sveitarfélagið gerði nýverið samning við Tröppu um margþætta þjónust við Tálknafjarðarskóla. Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson kynnir fyrstu skrefin og tímalínuna  við gerð skólastefnu fyrir Tálknafjarðarskóla. Reynt verður að fá sem flesta að þeirri stefnumótun. 

Rafmagnslaus náttfatadagur í skólanum föstudaginn 18. jan.

Föstudaginn 18. janúar er rafmagnslaus dagur í skólanum. VIð slökkvum ljósin eins mikið og við komumst upp með, slökum á í myrkrinu, leikum okkur með vasaljós og skugga og eigum góðan dag saman. Þeir nemendur sem vilja mæta í náttfötum og koma jafnvel með bangsa og vasaljós með í skólann.

Foreldraviðtöl mánudaginn 21. janúar

Foreldraviðtöl verða mánudaginn 21. janúar eins og fram kemur í skóladagatali og því engin kennsla þennan dag. Opið er á Mentor fyrir foreldra að skrá viðtalstíma.

Starfsdagur föstudaginn 11. janúar

4. jan. 2019

Starfsdagur er á föstudaginn 11. janúar bæði í grunnskólanum og leikskólanum og mæta nemendur því ekki í skólann

Gleðilega hátíð

24. des. 2018

Starfsfólk Tálknafjarðarskóla sendir ykkur hugheilar jólakveðjur með ósk um frið og farsæld á komandi ári. Kærar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða. 

Skóli hefst að nýju smkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 3. janúar.

Síðustu dagarnir fyrir jólafrí og litlu jólin

16. des. 2018

Mánudagurinn verður hefðbundin dagur. Á þriðjudaginn verður Tarzanleikur í Íþróttahúsi og hefðbundinn skóladagur.  Á miðvikudaginn 19. des. eru litlu jólin.  Fyrst verða stofujól síðan verður gengið í kringum jólatré og sungið, bæði leikskóli og grunnskóli saman. Búið er að setja  upp fallegt og stórt jólatré úr skóginum,  í valstofunni. Eftir jólatrésskemmtun er hátíðarmatur. Skólinn er búinn upp úr klukkan 13:00 hjá flestum en lengd viðvera verður fyrir 1.-2. bekk til kl. 14:00. Á litlu jólunum væri skemmtilegt að sem flestir mættu í einhverju rauðu, jólapeysu eða jólahúfu til að skapa skemmtilega stemmingu. Fimmtudaginn 20. des. hefst jólafrí í Tálknafjarðarskóla. Nemendur mæta svo aftur fimmtudaginn 3. janúar.

Sjöundi Grænfáninn afhentur Tálknafjarðarskóla

28. nóv. 2018

Kl. 13.00 í dag afhenti sveitastjórinn okkar, Bryndís Sigurðardóttir okkur í Tálknafjarðarskóla sjöunda Grænfánann. Lára Eyjólfsdóttir tók við fánanum fyrir hönd skólans sem formaður Grænfánanefndarinnar.  Aðrir í nefndinni eru Jökull Yngstakjarna, Agnes og Jón Þór Miðkjarna, Berglind og Ólöf Táningakjarna og Weronika og Elías Unglingakjarna. Tálknafjarðarskóli flaggar grænfánanum svonefnda til marks um það starf sem unnið er í skólunum á sviði umhverfismenntar en skólinn fékk fánann afhentan í fyrsta sinn árið 2006. Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum.

 

Námskeið fyrir foreldra "Jákvæð samskipti, virðing og vellíðan"

20. nóv. 2018

Miðvikudaginn 21. nóvember kl. 20.00 í Tálknafjarðarskóla er foreldrum boðið upp á námskeiðið “Jákvæð samskipti, virðing og vellíðan” með Ingibjörgu Ingu Guðmundsdóttur. Nálgun jákvæðrar sálfræði á því hvernig jákvæð samskipti, virðing og vellíðan geta leitt til betri árangurs. Er skólinn í lykilhlutverki, eru foreldrar í lykilhlutverki eða er samvinna skóla og foreldra það sem mestu máli skiptir, ásamt virðingu á báða bóga. Allir innilega velkomnir.

Námskeiðið er fyrir starfsmenn Tálknafjarðarskóla kl 14.00

Starfsdagur föstudaginn 16. nóv.

12. nóv. 2018

Starfsdagur er á föstudaginn 16. nóv. bæði í grunnskólanum og leikskólanum og mæta nemendur því ekki í skólann. 

 

Árshátíð Tálknafjarðarskóla fös. 2. nóv.

1. nóv. 2018

Árshátíðin hefst föstudaginn 2. nóvember kl 16:30 í íþróttahúsinu

Aðgangseyrir 1500 kr. Frítt fyrir börn

Allir nemendur eru búnir kl 12:30 og mæta aftur kl 16:00

 

Diskótek kl 19:30-20:30 í skólanum, valstofunni

 

 

Símalaus skóli

31. okt. 2018

Ákveðið hefur verið að Tálknafjarðarskóli verði símalaus skóli. Foreldrar nemenda í 9. og 10 . bekk studdu það eindregið að skólinn yrði símalaus. Komi nemandi með síma í skólann verður síminn geymdur í læstum skáp þar til skóladegi lýkur. Símar eiga einfaldlega að vera heima. Þurfi nemandi nauðsynlega að hringja er það hægt. Nokkrir skólar hafa tekið upp þessa stefnu og nýlega bættust fleiri skólar í þennan hóp eins og Háaleitisskóli á Ásbrú í Reykjanesbæ og Grunnskóli Húnaþings vestra. 

 

Foreldraviðtöl mánudaginn 29. okt

26. okt. 2018

Foreldraviðtöl verða mánudaginn 29. október eins og fram kemur í skóladagatali og því engin kennsla þennan dag. Allir ættu að vera með upplýsingar um tímasetningu viðtalstíma. 

Tími endurskinsmerkja genginn í garð

22. okt. 2018

Nú er veturinn á næsta leiti og tímabært að huga að endurskinsmerkjunum. Í myrkri sjást gangandi vegfarendur illa þrátt fyrir götulýsingu og ökuljós bifreiða. Þetta á sérstaklega við þegar um dökkan klæðnað er að ræða en þó má í öllum tilfellum fullyrða að endurskinsmerki séu nauðsynleg. Endurskinsmerkin þarf að staðsetja þannig að þau séu sýnileg og best er að hafa þau fremst á ermum, hangandi meðfram hliðum, á skóm eða neðarlega á buxnaskálmum. Þá virka endurskinsmerkin eins og blikkljós þegar ljós skín á þau. Því fyrr og betur sem ökumenn greina óvarða vegfarendur, hvort sem þeir eru gangandi, hlaupandi eða hjólandi, þeim mun meira er öryggi þeirra í umferðinni. Það er staðreynd að ökumenn sjá vegfarendur með endurskinsmerki a.m.k. fimm sinnum fyrr og því getur notkun endurskinsmerka skipt sköpum.

 

Breytt dagsetning samræmdu prófanna í 9. bekk í mars

19. okt. 2018

Samræmd könnunarpróf í 9. bekk skólaárið 2018-2019

Menntamálastofnun hefur borist tilkynning frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um breytingu á dagsetningum samræmdra könnunarprófa í 9. bekk, sem haldin verða í mars 2019. Ráðuneytið hefur ákveðið að færa dagsetningar könnunarprófanna fram um einn dag. Ástæða breytinganna er sú að Íslandsmót iðn- og verkgreina skarast á við fyrirhugað könnunarpróf í ensku þann 14. mars. Í tilkynningunni er nefnt að bæði Íslandsmótið og samræmdu könnunarprófin séu afar mikilvæg fyrir skólasamfélagið og þau geti ekki farið fram sama dag.

Vikudagur

Dagsetning

Bekkur

Námsgrein

Mánudagur

11. mars 2019

9. bekkur

íslenska

Þriðjudagur

12. mars 2019

9. bekkur

stærðfræði

Miðvikudagur

13. mars 2019

9. bekkur

enska

Íþróttahátíð Grunnskólanna haust 2018

Tálknafirði  fim. 18. okt.  8.-10. bekkur

Dagskrá

8:30 mæting í hús og allir gera sig klára

8:45 upphitun

9:10 skipt í lið

9:20 körfubolti

10:00 bandy

10:35 fótbolti

11:10 brennó

11:45 boðsund

12:30 pizza á Hópinu

·         Allir nema þau lið sem eru að keppa eru uppi í áhorfendastúku

·         Það er engin pása eða kaffitími, nærist milli leikja

·         Allir út í sundlaug eftir brennó, en aðeins þeir sem keppa í boðsundi fara í sundlaugina hinir fara í pottana eða vaðlaugina, þegar boðsundinu er lokið eru allir velkomnir í sundlaugina.

Samstarf Arctic Fish og Tálknafjarðarskóla

11. okt 2018

Arctic Fish í botni Tálknafjarðar hefur til umráða hágæða rannsóknarstofu búna fullkomnustu tækjum og eru tveir hámenntaðir líffræðingar sem annast rannsóknir fyrir stöðina. Nemendur Tálknafjarðarskóla munu fá að kynnast starfseminni og kryfja fisk og gera ýmsar athuganir og tilraunir, rannsaka bakteríur í rafeindasmásjám o. m.fl. Arctic Fish mun sjá um asktur á milli skóla og stöðvar. Tálknafjarðarskóli fagnar þessu samstarfi og því tækifæri sem nemendur fá til að kynnast vísindastarfi.

Bleiki dagurinn 2018

11. okt 2018

Föstudagurinn 12. október 2018 er Bleiki dagurinn. Bleiki dagurinn hefur notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár í bleika októbermánuðinum. Þennan dag hvetjum við landsmenn til að sýna samstöðu, klæðast bleiku og hafa bleikt í fyrirrúmi. Krabbameinsfélagið óskar eftir stuðningi almennings og fyrirtækja sem er gundvöllur þess að Krabbameinsfélagið geti starfað. 

Frí námsgögn og ávextir í skólanum

2. okt. 2018

Tálknafjarðarhreppur býður nemendum frí námsgögn og sömuleiðis fría ávexti í skólanum. Nemendur þurfa því ekki að koma með nesti né kaupa námsgögn. Nemendur eru mjög meðvitaðir um hollustu og hreyfingu og íþróttaáhugi óvenjulega mikill og sem dæmi þá völdu 90% nemenda í 7.-10. bekk, skólahreysti í vali.

Einnig má geta þess að engin unnin mætvæli eru notuð í skólanum og allt hráefni til matar stenst ýtrustu kröfur um gæði og hreinleika.

Heimsókn skólahjúkrunarfræðings 3. október

2. okt. 2018

Hjúkrunarfræðingur skólans verður með skólaskoðanir þ.e.a.s skimanir fyrir hæð, þyngd og sjón ásamt viðtali um lífstíl og líðan hjá 1. bekk, 4. bekk, 7. bekk og 9. bekk miðvikudaginn 3. október.

Forvarnardagurinn 3. október

29. sept. 2018

Forvarnardagurinn verður haldinn miðvikudaginn 3. október nk. Með deginum er verið að koma á framfæri þremur heillaráðum sem rannsóknir hafa sýnt að geta stuðlað að því að ungmenni verða síður áfengi og fíkniefnum að bráð. Heillaráðin þrjú eru: Samvera með fjölskyldu og vinum, þátttaka í skipulögðu íþrótta og tómstundastarfi og að fresta því að hefja drykkju áfengis. Þessir þrír þættir hafa sýnt sig vera verndandi þegar kemur að áfengis- og vímuefnaneyslu og því vert að huga að því að styrkja þá með öllum ráðum.

Íþróttaskóli barnanna

 25. sept. 2018

1.-2. bekkur í íþróttahúsinu

Tími

Mánudaga og miðvikudaga kl 13.15-14.00

Þri-, fim- og föstudaga kl 14.00-14.45

Hvað, hvenær:

Mán-, miðviku- og föstudaga er grunnþjálfun og sund. Þjálfari Maya (Marion Gisela)

Þriðju- og fimmtudaga er bolti. Þjálfari Kristján Arason

Önnin kostar 16 þúsund kr.

Börn sem alast upp við hollustu, hreyfingu, reglu og góðan svefn eru mun líklegri til að vegna vel í skóla og almennt í lífinu og eru mun ólíklegri til að ánetjast fíkniefnum. Íþróttir eru góð forvörn.

,,Lof mér að falla" á vegum félagsmiðstöðva

20. sept 2018

Félagsmiðstöðvar í samvinnu við foreldrafélögin í skólunum á svæðinu standa að sýningu myndarinnar ,,Lof mér að falla”  fimmtudaginn 20. september.

Albína býður nemendum í 9.-10. bekk á sýninguna og Allt í járnum gerir þeim kleift að komast yfir fjall. Farið verður frá Tíglinum kl 19:00 og komið til baka um 23.00

Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir kemur og stýrir umræðum. ,,Lof mér að falla”  er mynd sem byggð er á sannsögulegum atburðum um 15 ára stúlku sem ánetjast fíkniefnum og þykir myndin hafa gott forvarnargildi. Myndin hefur fengið mikla umfjöllun. Nokkur atriði myndarinnar eru erfið en myndin er bönnuð innan 14. Tveir starfsmenn skólans fara með.

Sýningin "Björt í sumarhúsi"

13. sept 2018

Sýningin Björt í sumarhúsi er söngleikur fyrir börn eftir Elínu Gunnlaugsdóttur við texta Þórarins Eldjárns sem byggir á ljóðum úr bókinni ,,Gælur, fælur og þvælur”. Sýningin er hugsuð fyrir yngsta stigið, elstu leikskólabörnin eru velkomin en að sjálfsögðu eru textar Þórarinns, tónlist, söngur og píanóleikur fyrir allan aldur þó sagan sé fyrir yngri áhorfendur. Sýningin verður í Tálknafjarðarskóla þriðjudaginn 18. sept kl. 10.00 eftir að allir eru komnir úr sundi eftir skólahlaupið

Skógrækt með Brynjólfi Gíslasyni

13. sept 2018

Farið verður í að gróðursetja plöntur með Brynjólfi Gíslasyni mánudaginn 17. sept. með þáttöku nemenda. Brynjólfur hefur þá tillögu að nefna plönturnar og að krakkarnir veldu nöfn á þær og notuðu nöfn dverga úr dvergatali Völuspár. Nafngift gæti aukið líkur á að staðsetning þeirra festist betur í minni. Meðal annars verða gróðursett ávaxtatré

 

Valgreinar

13. sept 2018

Valgreinar fara í gang á þriðjudaginn 18. sept. Skólahreysti er vinsælt val og verður í tveimur hollum á fimmtudögum.

Mánudagar: 1) Myndmennt  2) Borðspil 3) skák 4) Origami

Þriðjudagar: 1) Joga 2) vísindi og tækni, enskar bækur og myndir

Fimmtudagar; 1) Skólahreysti 9.-10.bekkur  byrjar kl. 12.10-13.10 og .7. -8. bekkur kl 13.10-14.10 
                          2) Yndislestur 3) bókmenntir

Eftir hádegi á miðvikudögum er smiðja. * Hugsanlega þarf smá lagfæringu á uppröðun

Mentor

13. sept 2018

Nú notum við Mentor. Mentor er heildstætt upplýsinga– og námskerfi fyrir nemendur, foreldra og skólann.  Þegar nemandi hefur nám í grunnskóla fá foreldrar hans aðgang að Mentor. Skólinn hefur tök á að senda reglulega upplýsingar um nám barnsins og skólastarfið til foreldra og foreldrar geta einnig sent upplýsingar til skólans. Með Mentor getur skólinn sett fram markmið fyrir hverja námsgrein á skýran og einfaldan hátt og þannig geta foreldrar alltaf haft aðgang að þeim markmiðum sem barn þeirra vinnur að og því sem við tekur.

Norræna skólahlaupið

13. sept 2018

Norræna skólahlaupið heitir nú Ólympíuhlaup ÍSÍ. Með Ólympíuhlaupi ÍSÍ er eins og áður leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Nemendur geta nú sem áður valið á milli þriggja vegalengda í hlaupinu, þ.e. 2,5 km, 5 km eða 10 km. Að hlaupinu loknu fær hver þátttakandi og hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri. Hlaupið verður nú á þriðjudaginn 18. sept kl 8.30 og síðan endað í sundi.

Brúðuleikhús fyrir Yngstakjarna í Skjaldborg Patró

6. sept 2018

Sýningin “Sögustund” á vegum Þjóðleikhússins og Brúðuheima verður í Skjaldborg kl. 10.00- 10.45. Krakkarnir fara með umsjónarkennara og er rútuferð fram og til baka.

Saga heimabyggðarinnar

6. sept 2018

Dagný frá Tungu sem rekur veitingastaðinn í Dunhaga bauð öllum skólanum í myndasýningu og sögustundí í síðustu viku. Sagði hún frá sögu og byggðaþróun Tálknafjarðar, sögu Hvalstöðvarinnar á Suðureyri og uppbyggingu “Þorpsins” og sýndi hún meðal annars myndir af fyrsta skólahúsinu og sundkennslunni hér áður fyrr. Frábært framtak og vel lukkað og Dagný hélt athygli allra barnanna allan tímann. Skólinn þakkar kærlega fyrir þetta góða framtak.

Matseðill vikunnar

6. sept 2018

Matseðill vikunnar birtist nú vikulega á heimasíðunni og má finna undir hnappnum “Starfið” og “Matseðill”. Matseðillinn er vandaður og fjölbreyttur og næringargildið mikið.

Lengd viðvera

6. sept 2018

Þar sem við fylgjum viðmiðunarstundaskrá þá er skólatími mislangur eftir aldri. 1.-2. lýkur skóla kl. 13.05 og til að koma á móts við foreldra þá bjóðum við upp á lengda viðveru til kl. 14.00 og til viðbótar er íþróttaskóli þrisvar í viku frá 14.15 -15.00

Hreyfimánuður - göngum eða hjólum í skólann

5. sept 2018

Septembermánuður er hreyfimánuður í Tálknafjarðarskóla. Göngum í skólann 2018 var hleypt af stað í tólfta sinn í dag miðvikudaginn 5. sept. Verkefnið var formlega sett í Ártúnsskóla í Árbæ dag og Lárus Blöndal forseti ÍSÍ stjórnaði dagskrá. Nánar um átakið  inn á gongumiskolann.is 

Merkt er við í skólanum hverjir ganga, hjóla o.fv. Allir með!

Haustþing - Starfsdagur 7. sept

1.sept 2018

Föstudaginn 7. september verður starfsdagur í Tálknafjarðarskóla. Haustþing kennara verður haldið þennan dag á Suðureyri við Súgandafjörð. Meðal annars verða formaður og varaformaður FG Þorgerður Diðriksdóttir og Hjördís Albertsdóttir á staðnum. Fyrirlestrar verð um áhugaverð málefni.

Skólabúðir

 1. sept 2018

7. bekkur fór í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði. Umsjónarkennarinn Helga Birna Berthelsen fór með bekknum og var ferðin einkar ánægjuleg og skemmtileg.

Fleiri skólar voru mættir og þar á meðal krakkar frá Ísafirði, Bolungarvík, Suðureyri og Vopnafirði. Þetta var fyrsta skólabúðarvika vetrarins.

Athugasemdir Menntamálastofnunar

 1. sept. 2018

Menntamálastofnun gerði úttekt í fyrra sem kallast; “Ytra mat skóla”. Samkvæmt því þurfti að gera starfsáætlun sem sem og nokkrar aðrar áætlanir sem þegar hefur verið gerð og finna má hér á heimasíðunni undir hnappnum “Áætlanir”. Einnig var farið fram á “Námsskrá” en hennar er að vænta innan skamms. Sömuleiðis skorti á uppfærslur á heimasíðu en með þessari nýju heimasíðu verðu bót á og um leið betra upplýsingaflæði til foreldra.Síðan. Einnig þarf að bæta námsárangur og verður unnið að því.

Skólastarfið hafið

1. sept 2018

Skólastarf Tálknafjarðarskóla hefur farið vel af stað. Allir kennarar skólans eru reynslumiklir réttindakennarar með farsælan feril. 42 nemendur eru í Grunnskólanum í fjórum kjörnum og 10 nemendur eru í Leikskólanum í tveimur kjörnum. 32 nemendur stunda nám í Tónlistarskólanum. Sú breytng verður á starfinu að unnið verður í lotum í aðalkennslustund. 17 lotur eru fyrir jól og 19 eftir jól. Þetta þýðir að lotur eða námstarnir verða í eina til tvær vikur í senn í ákveðnu fagi. Byrjað var á náttúrufræði og er náttúrufræði kennd í öllum kjörnum þvert á aldur en ólík þyngd efnis eftir aldri. Mikli áhersla verður lögð á smiðjurnar sem eru þrisvar í viku eftir hádegi. Elstu hóparnir eru byrjaðir á steinhöggi og að tálga í tré.