Grunnskólastarfið

Í Tálknafjarðarskóla eru rúmlega 40 nemendur á grunnskólaaldri. Skóladagurinn hefst kl 8.10 og er boðið upp á jógastund eða yndislestur fyrstu 10 mínútur skóladagsins áður en eiginleg kennsla fer fram. Kennslustundir eru 60 mínútur. Boðið uppá ávaxtastund eftir frímínútur gegn vægu gjaldi í stað hefðbundis nestistíma. Gott og heilsusamlegt mötuneyti er í skólanum þar sem eldað er á staðnum og borða nemendur og starfsfólk á sama tíma. Einu sinni yfir skólaárið fær hvert stig að velja heilan vikumatseðil í samráði við matráð skólans.

Samkennsla er í öllum árgöngum, skipt í yngsta stig, miðstig og unglingastig. Mikil samvinna er þvert á hópa, niður í elstu börn leikskóla, þar sem farið er í reglulegt hópastarf. Auk þess fara elstu börn leikskólans í vikulega tíma með yngsta stigi í hópavinnu í samþættum námsgreinum, forritun/vísindi ásamt listgreinum. 

Á miðstigi hefur verið í þróun að bjóða uppá aukið val, en á skólaárinu 2020-2021 býðst þeim einn tími á viku í val en boðið er upp á 8 tíma á unglingastigi samkvæmt viðmiðunarstundaskrá. Meðal vinsælla valgreina er samvinna við fyrirtæki á Tálknafirði, svokallað starfsnám, þar sem unglingarnir fara einu sinni í viku í 2 klukkustundir í senn í valin fyrirtæki til þess að kynnast starfsemi þess.

Skólinn er öflugur Grænfánaskóli og tekur einnig þátt starfinu sem Heilsueflandi skóli. Við leggjum mikla rækt við að vera sjálfbær, vistvæn og græn.