Heimasíðan hefur legið niðri síðan í byrjun febrúar og er nú loksins komin í lag. En margt hefur á daga okkar drifið síðan við settum inn síðustu færslu. Við höfum þó verið dugleg að miðla fréttum á facebook síðu skólans í millitíðinni.

Í byrjun febrúar hóf nýr deildarstjóri leikskóladeildar störf í Tálknafjarðarskóla, Elísabet Kjartansdóttir. Fyrrverandi deildarstjóri, Svanhildur Rós Guðmundsdóttir, tók við starfi sérkennslumála við skólann. Þann 11. febrúar kom til okkar verkefnið Fræ til framtíðar sem er þróunarverkefni sem 3.-6. bekkur tekur þátt í. Það snýr að ræktun fræja í sérútbúnum tækjabúnaði sem er í þróunarverkefninu. Virkilega spennandi verkefni og verður gaman að sýna afrakstur ræktunar.

Veðrið hélt áfram að setja strik í reikninginn og var skóla aflýst 14. febrúar, í annað skiptið á árinu 2020. Vikuna 17. -21. febrúar var matseðill ákveðinn af nemendum í 3. -6. bekk en er það verkefni í gangi á skólaárinu í samráði við Jenný matráð þar sem nemendur fá að velja hvað er í matinn í eina viku. Hefur það gengið mjög vel og nemendur spenntir að setja sitt mark á matseðilill. Samt sem áður hefur valið hingað til verið lítið öðruvísi en það sem boðið er upp á venjulega, það er því hægt að segja að það sé almenn ánægja með matinn í skólanum.

Föstudaginn 21. febrúar var öllum mömmum, ömmum, systrum og frænkum boðið í dögurð í tilefni Konudagsins og var samkoman vel sótt. Síðan tóku við skemmtilegir dagar að venju, bolludagur, sprengidagur og öskudagur með öllum þeim íslensku hefðum sem fylgja þeim dögum. Þann 25. febrúar kom Margrét Magnúsdóttir í heimsókn til unglinganna okkar og kynnti fyrir þeim launaseðla, og hvernig eigi að lesa út úr þeim. Mjög skemmtilegt verkefni.

          

Nokkrir unglingar í 8. og 9. bekk eru að taka þátt í stærðfræðikeppninni Pangeu, og hafa nú farið í gengum 2 umferðir. Við bíðum spennt eftir niðurstöðum úr 2. umferð um hverjir komust áfram. Fjölmenningarhátíðin var síðan haldin þriðjudaginn 3. mars og var virkilega vel sótt. Nemendur höfðu unnið verkefni sem tengdust löndum sem íbúar Tálknafjarðar eru tengdir. Alls voru 13 lönd kynnt og einnig fengum við nokkra aðila til þess að kynna sín heimalönd. Allir voru sammála um að hátíð hafi heppnast virkilega vel og sé komin til að vera.

Fjölbreytt og skemmtilegt starf í Tálknafjarðarskóla !!