Það var virkilega gaman að sjá hve margir sáu sér fært að mæta á Íslenskuhátíðina okkar og 50 ára afmælisveislu skólans.

Birna Friðbjört S. Hannesdóttir, skólastjóri Tálknafjarðarskóla, setti hátíðina og bauð gesti velkomna. Þar fór hún stuttlega yfir sögu skólans auk framtíðarsýn skólans.

Leikskólinn og yngsta stig grunnskóla tók við og var með skemmtilegt tónlistaratriði þar sem þau sungu Íslenskuljóðið hátt og skýrt. Miðstig grunnskóla var með frásögn sem bar nafnið skólinn minn en þar sagði hver nemandi frá einu atriði sem þau elskuðu við skólann sinn. Unglingastigið var með ljóðalestur ásamt því sem þau greindu frá sigurvegurum úr Sögukeppni skólans sem Nemendaráð stóð fyrir í tilefni dótadags þann 22. nóvember síðastliðinn. Það voru 3 nemendur úr skólahóp leikskólans sem báru sigur úr býtum.

Við fengum tvo ræðumenn til okkar en það var Lilja Magnúsdóttir, sveitarstjórnarkona, sem ræddi um gildi íslenskrar tungu og öflugs skólastarfs og einnig kom fram Kristjana Andrésdóttir, íbúi á Tálknafirði, sem sagði okkur frá því hvernig lífið var í skólanum þegar hún var lítil stúlka í þessum skóla.

Virkilega skemmtilegar frásagnir um skólalífið fyrir 50 árum.

Skemmtilegt er að segja frá því að þennan dag fékk skólinn afhent stórt innrammað skjal til staðfestingar að Tálknafjarðarskóli starfi í anda Heilsueflandi skóla.

Verkefnið um heilsueflandi skóla er ætlað að styðja skóla í að vinna markvisst að heilsueflingu í starfi sínu. Í því felst að skapa skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks í samvinnu við heimili og nærsamfélag. Skólar koma sér upp heildrænni og vel skipulagðri heilsustefnu þar sem horft er á allt skólasamfélagið í heild.

Bestu þakkir til allra sem komu og fögnuðu með okkur.