Í september var þemað okkar UMHVERFI OG LESTUR og samhliða byrjaði lestrarverkefnið okkar sem kallast einfaldlega LESTUR ER BESTUR !! Markmið verkefnisins er að hvetja nemendur til þess að lesa meira, velta fyrir sér hvar áhugi þeirra innan bókmennta liggur og hvetja þau til þess að skoða mismunandi form lesturs. Fyrsta stig verkefnisins var að nemendur bjuggu til LESTRARFJALL þar sem þau setja markmið um fjölda blaðsíðna og eru markmiðin aðlöguð að aldri. Grænu blaðsíðutölin eru fyrir eldri nemendur á meðan bláu eru fyrir yngri nemendur sem eru styttra komin í lestri. Allt gert til þess að hvetja þau til þess að lesa. Þegar þau ná ákveðnu markmiði þá fá þau að klifra upp fjallið, það getur verið mikið sport, sérstaklega fyrir yngstu nemendur skólans.

Í október breyttist þemað okkar yfir í GEIMINN og hafa allir nemendur skólans verið að gera fjölbreytt verkefni tengd geimnum. Varðandi lestrarverkefnið var ákveðið að nú skyldi færa lestrarfjallið út í geiminn og var geimurinn settur við hlið fjallsins. Næstu skref eru að hoppa á milli pláneta og færast þannig áfram í lestri. Virkilega spennandi.

Auk þessa verkefnis höfum við jafnt og þétt verið að auka sýnileika bókarinnar innan veggja skólans með það að markmiði að kynna fjölbreyttar bókmenntir sem höfða til sem flestra.

Fyrir framan stofur yngsta stigs og miðstigs grunnskólans hefur verið settur upp bókarekki með heimalestursbókum sem verða flokkaðar eftir erfiðleikastigi. Þar er ætlunin að nemendur fái tækifæri að velja sér næstu heimalestursbók eftir áhugasviði sínu, taka þannig ábyrgð á eigin námi og auka líkur á því að heimalesturinn verði ánægjulegri. Auk þess munu koma bækur sem hægt er að grípa með sér aukalega meðal annars bækur á öðrum tungumálum. Einnig voru settar upp 3 hillur fyrir unglingastig, miðstig og yngstastig þar sem settar verða fram bækur sem nemendur geta gripið í eftir áhuga. Næstu skref eru að gera svipað fyrirkomulag á leikskóladeildinni og er það í mótun.