Á hverju hausti býður Höfundamiðstöð RSÍ grunnskólum um land allt upp á bókmenntadagskrár undir nafninu Skáld í skólum þar sem höfundar heimsækja skólana til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi. Dagskrárnar í Skáld í skólum eru metnaðarfullar og fræðandi, höfundar koma í heimsókn til að tala um bækur og lestur, sköpun og skrif, ævintýri sögupersóna jafnt sem skapara þeirra og síðast en ekki síst til að smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði.

Nemendur í Tálknafjarðarskóla (elstu leikskólabörnin og grunnskólanemendur) voru svo heppin að fá til sín Lindu Ólafsdóttir teiknara og barnabókahöfund og Vilhelm Anton Jónsson söngvara, tónlistarmann, kvikmyndaleikara og þáttastjórnanda í útvarpi og sjónvarpi og þar að auki barnabókahöfund. Þau fóru með nemendur ævintýraleiðangur um undraheima sköpunar og ímyndunarafls þar sem þau sköpuðu sögu með Villi stjórnaði og Linda teiknaði. Nemendur fengu að taka þátt í sköpun sögunnar og skyldu síðan listaverk Lindu eftir fyrir okkur að njóta.

Verkefnið Skáld í skólum er með það markmið að auka áhuga nemenda á lestri og sköpun. Áhugi á bóklestri tengist betri lesskilningi sem er undirstaða alls náms. Í stuttu máli sagt gengur börnum sem hafa gaman af því að lesa bækur, betur í skólanum. Bóklestur eykur einnig víðsýni og umburðarlyndi, kennir börnum að setja sig í spor annarra og átta sig á skráðum og óskráðum reglum samfélagsins, lestur eflir málþroska, sköpunargáfu, ímyndunarafl  og orðaforða. Svo er bóklestur líka svo skemmtilegur, kærkomið athvarf frá amstri dagsins.

Linda og Villi voru hæstánægð með heimsóknina. Voru sérstaklega ánægð með móttökurnar en nemendur höfðu skreytt gangstéttina áður en þau komu. Þau voru einnig ánægð með hversu hugmyndarík nemendur voru og hversu mikið þau tóku þátt í verkefninu. Við færum þeim bestu þakkir fyrir komuna og Rithöfundasambandi Íslands fyrir framtakið.