Í vor fékk Tálknafjarðarskóli í samstarfi við Kómedíuleikhúsið veglegan styrk úr Barnamenningarsjóði til verkefnis sem ber heitið Listasmiðjur með listamönnum úr heimabyggð.  Um er að ræða þróunarverkefni sem er í boði fyrir alla skólana á sunnanverðum Vestfjörðum. Hugsunin bak við verkefnið er að auka flóru listsköpunar í litlu skólunum okkar á sunnanverðum Vestfjörðum. Hér er um að ræða samstarf milli skólanna og þeirra listamanna sem búa á eða eru ættaðir af svæðinu. Listamennirnir koma heim og taka þátt í verkefninu með því að deila sinni þekkingu og list til barnanna í heimabyggð. Verkefnið er sniðið að börnum frá elstu tveimur árgöngum leikskóla til 10. bekkjar grunnskóla. Skipt er í tvo hópa, annars vegar leikskóli og 1.-4. bekkur saman hinsvegar og 5.-10. bekkur saman. 

Markmið

 1. Að bjóða nemendum uppá fjölbreytt úrval listgreina.
 2. Að opna fyrir fjölbreyttar leiðir fyrir nemendur í listsköpun sinni til að vinna með hugmyndir, varpa fram spurningum, endurspegla og túlka eigin reynslu og annarra.
 3. Að nemendur öðlist aukinn skilning og læsi á eigið samfélag og menningu.
 4. Að nemendur kynnist listamönnum af svæðinu og átta sig á að unnt er að vinna að list á sínu heimasvæði

Listasmiðjunum er skipt niður í fimm lotur yfir skólaárið. Fyrstu fjórar smiðjurnar eru vinnusmiðjur og sú fimmta er lokahátíð og uppgjör. Smiðjurnar eru haldnar á tveggja mánaða fresti; 7. -11. september, 9.-13. nóvember, 25. – 29. janúar, 15.-19. mars og í lokin hátíð 21. maí. Hver smiðja er í viku í senn. Listamenn heimsækja yngri hópinn í sínum heimaskóla en eldri hópurinn sameinast á Tálknafirði. 

Fyrsta vikan er yfirstaðin og fór hún fram dagana 7. til 11. september. Þeir listamenn sem kenndu í smiðjunni voru Þórarinn Hannesson með skapandi skrif, Daníel Perez Eðvarðsson með myndlist, Marion Worthmann með dans og Svavar Knútur með tónlist. Gaman var að sjá, eftir því sem dagarnir liðu, hversu meiri þátt nemendur tóku í verkefninu. Næsta smiðja er í nóvember og þá munum við fá nýja listamenn til okkar; Gígja Skjaldardóttir með tónlist, Ársæll Sigurlaugar Níelsson með leiklist, Marzibil Snæfríðar Sæmundardóttir með kvikmyndagerðarlist og Daníel Perez Eðvarðsson með ljósmyndun. Fjölbreytt list til að höfða til sem flestra.

 

Umsagnir nemenda:

 • Hvað lærðir þú í listasmiðjuvikunni?
  • Hvernig maður á að standa þegar maður talar fyrir framan fólk og hvernig maður skrifar ljóð
  • Að líkaminn minn er hljóðfæri
  • Ég lærði að allt getur verið list
 • Hvað fannst þér gaman í listasmiðjuvikunni?
  • Mér fannst gaman að hitta fleiri krakka
  • Mér fannst það gaman því að við vorum að gera einhvað nýtt
  • Mér fannst gaman af því að ég eignaðist vini
 • Hvað var eftirminnilegast í listasmiðjuvikunni?
  • Tiktok dansar hjá Mayu
  • Að semja ljóð hjá Tóta og það var gaman
  • Að teikna á langa blaðið og hjá Svavari Knút

Við viljum hrósa nemendum fyrir að vera dugleg að stíga út fyrir þægindarammann sinn og taka þátt í nýju verkefni. Fyrir suma er skrefið stórt sem þarf að taka og nýjar aðstæður geta verið erfiðar. Við viljum hrósa þeim sérstaklega. En allir nemendur stóðu sig mjög vel. Við hlökkum til næstu listasmiðjuviku.