Í Tálknafjarðarskóla leggjum við mikla áherslu á nemendalýðræði með þeim hætti að leyfa rödd nemandans að heyrast til þess að nemendur fái tækifæri til að hafa áhrif á skólastarfið. Einn liður í því er að fá nemendur til þess að koma skoðunum sínum á framfæri við skólastjóra og starfsfólk skólans með skipulegum og reglubundnum hætti. Á þessu skólaári höfum við meðal annars haldið Nemendaþing þar sem allir nemendur höfðu rödd og fengu að segja sína skoðun á ýmsum málefnum skólans. Einnig hefur skólastjóri verið að vinna að verkefni sem heitir Óskaskólinn minn en þar er leitað eftir skoðunum og hugmyndum nemenda, foreldra, starfsfólks og samfélagsins varðandi ýmsa þætti er koma að skólastarfinu. Slíkar upplýsingar gefa betri heildarmynd á hvaða áherslur skólasamfélagið hefur og nýtist í þróun skólans.

Í þessu sambandi má segja frá skemmtilegri nýjung hjá okkur, en í vetur hefur matráður skólans fengið nemendahópana til þess að velja Matseðil vikunnar fyrir skólann út frá því hvað þeim finnst best. Eina krafan var að það væri fiskur tvisvar í viku, en síðan voru tillögur þeirra ræddar í samráði við matráðinn. Skemmst er frá því að segja að miðað við val nemenda þá gefa þær niðurstöður til kynna að nemendur séu heilt yfir ánægðir með matinn í skólanum þar sem lítið var um nýjungar heldur völdu nemendur frekar uppáhalds réttina sína sem eru í boði allt árið. Nauðsynlegt er þó að leggja fyrir formlega könnun til að fá staðfestar niðurstöður um hvað er gott og hvað megi betur fara. Hér má sjá matseðla allra hópanna: