Í Tálknafjarðarskóla höfum við verið að vinna að því þróunarverkefni að útbúa einn námsvísi fyrir allan grunnskólann. Í námsvísi er gerð grein fyrir þeim aðferðum sem skólinn hefur valið til þess að útfæra þær áherslur sem birtast í Aðalnámskrá. Stefna skólans er að um 80% náms barna fari fram með heildstæðum samþættum verkefnum sem sameina efni úr öllum námsgreinum sem nemendur eiga að fást við samkvæmt Aðalnámskrá. 

Skólaárið skiptist  í sex þemaverkefni sem falla beint undir grunnþætti menntunnar. Efst í námsvísi má því sjá sex grunnþætti menntunar ásamt stýriorðum. Undir hvern grunnþátt er þemað á lotuverkefnunum eða Stóru Verkefnunum sem við tökum okkur fyrir hendur. Þar undir er fjallað um þemað, hvaða heimsmarkmið falla undir þemað, kennsluaðferðir og skipulag ásamt námsferli. Einnig má finna í þessu skjali skipulag á morgunstund, talnastund og skólaíþróttum ásamt áhugasviðsverkefnum í Kistlinum. 

Skjalið “Námsvísir skólans”, sem má finna í bláa boxinu hér fyrir neðan, er skjal í vinnslu. Næstu skref eru að hlekkja kennsluáætlun við hverja lotu. Við gerum ráð fyrir að kennsluáætlanir bætist inn er líður á skólaárið. Sama þemað og sami námsvísirinn gildir fyrir allan skólann og nær einnig að teygja sig að hluta til á leikskóladeildina.