Nemendafélag Tálknafjarðarskóla

Nemendafélag og áhrif nemenda

Í 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um rétt barna til að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Þá má nefna að í 13. gr. sáttmálans segir að börn eigi rétt á að tjá sig, fá upplýsingar og koma þeim á framfæri. 

Í aðalnámskrá – almennum hluta 2011 segir að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði. Með virkri starfsemi nemendafélags fá nemendur tækifæri til lýðræðislegrar þátttöku í hagsmunamálum sínum og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum. Fulltrúar nemenda í skólaráði geta borið upp erindi um hagsmunamál nemenda við skólaráð og haft þannig áhrif á starfið í skólanum. Í 10. gr. laga um grunnskóla er fjallað um nemendafélög (sem í fyrri lögum grunnskóla voru nefnd nemendaráð): 

Við grunnskóla skal starfa nemendafélag og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda og skal skólastjóri sjá til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum.  
Nemendafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð skv. 2. mgr. 8. gr. 

Í athugasemd um þessa grein segir í frumvarpinu að eðlilegt sé að hver skóli þrói skipan mála eftir því sem hentar í skólanum með nemendalýðræði og þátttökulýðræði að leiðarljósi. Ekki er sérstaklega bundið í lögum að stjórn skuli skipuð fulltrúum úr öllum árgöngum skólans en eðlilegt er að fulltrúar allra árganga geti tekið þátt í starfi félagsins eftir því sem þroski nemenda leyfir. 

Nemendafélag er þó ekki eini vettvangur nemenda til að koma hugmyndum sínum um betri skóla á framfæri. Í kafla 7.4 í aðalnámskrá – almennum hluta (2011) segir: 

Nemendur eiga rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og aðrar ákvarðanir sem snerta þá. Taka skal tillit til sjónarmiða þeirra eftir föngum. Nemendur eiga að geta komið á framfæri sjónarmiðum sínum í öllu almennu skólastarfi, t.d. með reglulegum umræðum í kennslustundum undir stjórn umsjónarkennara þegar tilefni gefast til. Einnig eiga nemendur að geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri í gegnum fulltrúa sína í stjórn nemendafélags og skólaráði.