Kæru foreldrar og forráðamenn.

Nú er seinustu kennsluviku á grunnskólastigi lokið fyrir páska og páskafríið þeirra formlega hafið en leikskólinn verður áfram opinn í næstu viku eða þar til á skírdag fimmtudaginn 9. apríl. Skólastarf hefst að nýju þriðjudaginn 14. apríl. 

Skólastarfið hefur gengið vel þessa vikuna eins og seinustu tvær. Allir aðlaga sig vel að breyttum aðstæðum þó þær geti vissulega tekið á. Við höldum að sjálfsögðu ótrauð áfram og gerum okkar allra besta til að láta skólastarfið ganga eins vel og hægt er. Með samvinnu nemenda, foreldra og starfsfólks gengur þetta allt saman upp.

Gaman er að segja frá því að í daga fengu allir nemendur lítil páskaegg að gjöf frá íþróttafélaginu UMFT þar sem páskaeggjaleitin fellur niður í ár. Það vakti mikla lukku nemenda og þökkum við kærlega fyrir okkur.

Varðandi skólastarf að loknu páskafríi þá er nú ljóst að samkomubann hefur verið framlengt til 4. maí og við gerum því ráð fyrir því að fyrirkomulag kennslu verði það sama og það er nú, með fyrirvara um breytingar vegna nýrra tilmæla. Eins og við vitum geta aðstæður breyst frá degi til dags og við minnum á mikilvægi þess að fylgjast vel með tilkynningum frá skóla og sveitarfélagi.

Með bestu óskum um gleðilega páska og von um að þið njótið samverunnar.

Birna Friðbjört S. Hannesdóttir

Skólastjóri