Skólasetning grunnskólahluta Tálknafjarðarskóla fór fram fimmtudaginn 20. ágúst síðastliðinn í sal skólans. Vel var mætt og gildandi sóttvarnarreglum fylgt við framkvæmd skólasetningar. Eftir skólasetningu tók Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps til máls og óskaði öllum til hamingju með nýtt og spennandi skólaár. Í lokin voru nemendum og foreldrum boðið í skólastofurnar þar sem nemendur fengu afhenta stundatöflu og skóladagatal ásamt stuttu samtali við umsjónarkennarann.

Nálgast má ræðu skólastjóra hér

Mikil spenna er fyrir komandi skólaári og margt skemmtilegt framundan, meðal annars hefur skólinn fengið tvo þróunarstyrki fyrir skólaárið. Annar er úr Sprotasjóði og heitir „Heildstætt nemendamiðað nám með áherslu á heimsmarkmiðin“ og verður verkefnið í samvinnu við Bíldudalsskóla. Hinn styrkurinn er úr Barnamenningarsjóði og heitir „Listasmiðjur með listamönnum úr heimabyggð“ og verður í boði fyrir alla skólana á sunnanverðum Vestfjörðum. Við erum virkilega stolt og spennt að takast á við þessi nýju verkefni og innleiða þau. Auk þessa verkefna fékk skólinn styrk frá forriturum framtíðarinnar fyrir bæði tækjakaupum og námskeiði en kennarar sátu námskeið frá Skema síðastliðinn þriðjudag og verður gaman að fylgjast með kennslu í forritun í vetur, bæði á leik- og grunnskólastigi.

Við erum svo heppin að vera áfram með flest okkar starfsfólk frá fyrra vetri sem er ómetanlegt en einnig nokkra nýja og bjóðum við þá hjartanlega velkomna. Birgitta Guðmundsdóttir mun vera áfram með umsjón á yngsta stigi og Gígja Þöll Rannveigardóttir er nýráðin sem stuðningsfulltrúi og mun sjá um lengda viðveru. Solveig Björk Bjarnadóttir verður áfram á miðstiginu og Lára Eyjólfsdóttir í stuðning auk þess að kenna útikennslu og yoga. Helga Birna Berthelsen hefur einnig hafið aftur störf við skólann og mun taka við af Ágústu Ósk Aronsdóttir, sem er á leið í fæðingarorlof, sem umsjónarkennari á unglingastigi ásamt kennslu í stærðfræði á miðstigi og í valgreinum. Guðlaug Björgvinsdóttir verður Helgu Birnu til halds og trausts sem og aðstoða í listgreinum. Jón Örn Pálsson mun sjá um stærðfræðikennslu á unglingastigi og Sveinn Jóhann Þórðarson verður með valgreinakennslu. Kristín Brynja Gunnarsdóttir, íþróttakennari, er farin í fæðingarorlof og mun Marion Worthmann sjá um íþróttir í hennar fjarveru ásamt því að sinna tónlistarkennslunni. Daníel Perez Eðvarðsson sem útskrifast með kennsluréttindi úr Listaháskóla Íslands mun meðal annars sjá um listasmiðjuverkefnið okkar og kenna valgreinar. Svanhildur Rós Guðmundsdóttir er deildarstjóri nemendaþjónustu, Jenný Lára Magnadóttir er áfram í eldhúsinu og Agnieszka Slomska er komin aftur úr fæðingarorlofi og sér um ræstingar. Einnig er nýr starfsmaður á leikskóladeildinni sem heitir Bára Mjöll Ragnheiðardóttir og verður hún og Sandra Lind Bjarnadóttir með ungbarnadeildina og Elísabet Kjartansdóttir með eldri börnin. María Kuzmenko er í afleysingum á báðum deildum.