Skólaslit Tálknafjarðarskóla fóru fram miðvikudaginn 29. maí í fallegu kirkjunni okkar í blíðskaparveðri. Athöfnin var létt og falleg. Gaman var að sjá prúðbúna nemendur og sérstaklega gaman að útskrifa bæði yngstu börn leikskólans og elstu börn grunnskólans. Einar Bragi og Jón Hilmar voru með tónlistaratriði fyrir okkur og þökkum við þeim kærlega fyrir.

Ég læt myndirnar tala en fyrir neðan myndir má sjá ræðu skólastjóra. Ég óska öllum nemendum skólans, starfsfólki, foreldrum og samfélaginu gleðilegs sumars. Vona að þið eigið eftir að njóta sumarsins með fjölskyldu og vinum. Hlakka til öflugs samstarfs næsta haust !

Birna Friðbjört S. Hannesdóttir
Skólastjóri

 

Ræða skólastjóra

Kæru nemendur, foreldrar, kennarar, starfsfólk og aðrir gestir. Velkomin á skólaslit Tálknafjarðarskóla árið 2019.

Mér er sönn ánægja að vera komin hingað til ykkar á Tálknafjörð og fá að vera hluti af skólasamfélaginu. Þó að ég sé nýkomin til starfa sem skólastjóri þá er ég búin fá þann heiður að kynnast börnunum í skólanum og ég sé hvað hér eru einstaklega flottir krakkar. Í börnum býr svo mikill sköpunarkraftur sem er gaman að fylgjast með.

Nám á leik- og grunnskólastigi er mikilvægur grunnur fyrir leik og starf til framtíðar. Skólinn og samfélagið ásamt heimilinu ber mikla ábyrgð á að leiðbeina og aðstoða börn til þess rækta þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu þeirra í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Grunnþættir menntastefnu Íslands sem varða starfshætti, inntak og umhverfi náms á öllum skólastigum og skapa mikilvæga samfellu í íslensku skólakerfi eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Starfshættir leik- og grunnskóla ásamt samskiptum barna sín á milli og við kennara sína eru ekki síðri en viðfangsefni kennslustunda, og til að ná markmiðum skólanna og stuðla að velferð, námi og menntun barna skulu starfshættir skólanna mótast af umburðarlyndi og jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi og ábyrgð. Það er mikilvægt að við öll sem heild styðjum skólastarfið með jákvæðni í fyrirrúmi og eigum uppbyggilega gagnrýna umræðu um það starf sem fram fer í skólanum. Skiptar skoðanir geta verið á ágæti framkvæmda og starfi en þá er gott að það fari fram uppbyggileg umræða og ábendingar til þess að bæta starfið enn frekar. Við fögnum öllu samstarfi því það eflir skólastarfið.

Það eru svo sannarlega spennandi hlutir framundan en næsta stóra verkefni okkar er að móta skólastefnu fyrir sveitarfélagið sem þið fáið kost á að taka þátt í. Þessi vinna mun hefjast í haust. Út frá þeim forsendum sem þar verða sett fram mun skólinn móta sína stefnu og framtíðarsýn. Eitt veit ég þó og það er mín persónulega framtíðarsýn að Tálknafjarðarskóli verði framúrskarandi skóli innan fimm ára og verði sá skóli á landsbyggðinni sem tekið verður eftir. Til þess að framkvæma þessa sýn er mikilvægt að við vinnum öll saman að sameiginlegu markmiði sem við munum setja okkur í haust. Þá á ég við kennarar, starfsfólk, nemendur, foreldrar, aðstandendur, sveitarfélagið og samfélagið allt. Því eins og sagt er það þarf heilt þorp til þess að ala upp barn og hér í okkar litla samfélagi á það vel við.

Áður en við förum í útskriftina ætla ég að kynna sumarlestur Tálknafjarðarskóla. En í leik og starfi í góða veðrinu vill lesturinn stundum gleymast enda á bókin oft í harðri samkeppni við hina ýmsu miðla. Rannsóknir sýna að mikil lestrarfærni getur tapast yfir sumarmánuðina og því er mikilvægt að viðhalda henni allt árið um kring. Þess vegna afhendum við öllum nemendum skólans sumarlestrareyðublað og þar er hvatt til að lesið sé í 15 mín á hverjum degi í sumar eða látið lesa fyrir sig þeir sem ekki kunna að lesa ennþá. Þið krossið yfir klukkuna fyrir hvern dag sem þið lesið og í lok sumars sjáum við hversu margar mínútur þið lásuð í sumarlestrinum.

Markmiðið er að ná 30.000 mínútum samtals að sumri loknu. Ef við náum þessu markmiði verður farið í bíóferð með allan skólann í haust.

Með þessum orðum ætla ég að ljúka minni fyrstu ræðu sem skólastjóri og þakka enn og aftur fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt að taka við sem skólastjóri Tálknafjarðarskóla. Áður en við hefjum afhöfnina ætlum við að bjóða ykkur upp á tónlistaratriði. Ég bíð Einar Braga og Jón Hilmar kærlega velkomna. Gjörið þið svo vel !

*Kæru nemendur 10. bekkjar. Það er stórt skref að ljúka grunnskólastigi og gaman fyrir ykkur að líta yfir farinn veg og sjá hversu langt þið hafið farið. Við óskum ykkur innilega til hamingju með útskriftina, við erum stolt af ykkur og þið vitið að þið getið alltaf leitað hingað til okkar. En nú taka við spennandi tímar á öðrum stað og við hér í skólanum hlökkum til að fylgjast með ykkur vaxa og blómstra í lífi og starfi. Þið hafið heiminn í hendi ykkar og mín ráðlegging til ykkar er að velja veg ykkar viturlega til þess að þið getið nýtt hæfileika ykkar og styrkleika til fulls.