Í dag fékk Tálknafjarðarskóli samþykktan styrk úr Sprotasjóði að upphæð 1.620.000 fyrir verkefnið: Heildstætt nemendamiðað nám með áherslu á heimsmarkmiðin. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Bíldudalsskóla á komandi skólaári. Virkilega spennandi og við erum þakklát fyrir veittan styrk.

ÚTHLUTUN ÚR SPROTASJÓÐI FYRIR SKÓLAÁRIÐ 2020-2021

Sprotasjóður er sameiginlegur sjóður fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá. Hlutverk sjóðsins er að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi. Áherslusvið sjóðsins á tímabilinu byggja á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sér í lagi markmiðum 3, 4, 11, 12 og 13. Önnur af heimsmarkmiðunum koma einnig til greina.

Samstarf í lærdómssamfélagi
Stjórn Sprotasjóðs hvetur umsækjendur til að leita samstarfs við aðra skóla eða stofnanir um verkefni. Þannig geti fleiri skólar notið góðs af styrkjum sjóðsins. Stjórn hefur á undanförnum árum séð að margir skólar sækja um styrki fyrir keimlík verkefni sem mögulega hefði getað orðið enn öflugri ef fleiri hefðu sameinast um verkefnið. Með því er unnið í samræmi við hugmyndir um lærdómssamfélag. Til þess að leita að samstarfsaðilum má nýta sér samfélagsmiðla, fundi og önnur tengslanet.

Virkni nemenda
Stjórn Sprotasjóðs vill einnig minna á að virkni nemenda á styrktímabilinu er einn af lykilþáttunum sem litið er til við mat á umsóknum.

Fyrir skólaárið 2020 – 2021 verða til úthlutunar allt að 56 milljónum krónum en í samtals var sótt um styrki að upphæð rúmlega 155 milljónum króna.