Nýtt skólaár er hafið með fullum krafti og gaman að fylgjast með fjölbreyttu starfi skólans. Á þessu skólaári höfum við fengið þrjá nýja starfsmenn til okkar og fögnum við því. Daníel Perez Eðvarðsson er nýútskrifaður listgreinakennari og hefur umsjón með listgreinakennslu ásamt listasmiðjuverkefninu okkar sem er spennandi þróunarverkefni sem við tökum þátt í með skólunum á sunnanverðum Vestfjörðum. Einnig höfum við fengið Gígju Þöll Rannveigardóttur til starfa sem stuðningsfulltrúi á yngsta stigi ásamt því að hún er með umsjón yfir lengdri viðveru. Þá hefur Bára Mjöll Ragnheiðardóttir hafið störf á nýrri ungbarnadeild Tálknafjarðarskóla. Mikil fjölgun barna hefur verið á leikskólanum og erum við með níu börn á Kríladeildinni og fjögur börn á Krakkadeild. Allt á uppleið.

Þann 1. september síðastliðinn fékk skólinn Grænfánann afhentann í áttunda sinn, en þess má geta að Tálknafjarðarskóli var fyrsti skólinn á Vestfjörðum til að fá Grænfánann. Mikið og öflugt starf hefur verið í gangi síðan þá og hefur Lára Eyjólfsdóttir verið með umsjón með verkefninu. Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps, afhenti fánann fyrir hönd Landverndar við hátíðlega athöfn í skólanum. Síðan tók við leikir og skemmtun sem voru skipulögð af okkar flottu unglingum sem nema við skólann og svo endað á grillveislu. Mikið fjör!

 

 

Tálknafjarðarskóli leggur mikla áherslu á sjálfbærni og tekur þess vegna þátt í bæði Grænfánastarfinu sem og Heilsueflandi skóli. Markmiðið er að auka færni nemenda og kunnáttu hvað umhverfisvernd
varðar og þannig stuðla að þróun í átt að sjálfbærni. Í fyrra tók skólinn þátt í tilraunaverkefninu Fræ til framtíðar sem er verkefni sem snýr að ræktun grænmetis og kryddjurta í kennslustofum. Við munum halda því verkefni áfram í vetur og auk þess hefur skólinn fjárfest í Bambahúsi sem er gróðurhús sem er endurnýtt úr bömbum (tankar) sem annars eru urðaðir. Svo til að toppa allar þessar nýjungar þá erum við einnig byrjuð að vinna okkur áfram í moltugerð. Það eru því sannarlega margir grænir fingur hér í þjálfun og verður virkilega gaman að fylgjast með þróuninni í vetur.

 

 

Í næstu viku hefst svo fyrsta vika í Listasmiðjuverkefninu okkar. Markmiðið með þessu verkefni er að auka flóru listsköpunar í litlu skólunum okkar á sunnanverðum Vestfjörðum. Hér er um að ræða samstarf milli skólanna og þeirra listamanna sem búa á eða eru ættaðir af svæðinu. Listamennirnir koma heim og taka þátt í verkefninu með því að deila sinni þekkingu og list til barnanna í heimabyggð. Verkefnið er sniðið að börnum frá elstu tveimur árgöngum leikskóla til 10. bekkjar grunnskóla. Skipt er í tvo hópa, yngri: leikskóli og 1.-4. bekkur og eldri: 5.-10. bekkur.

Listasmiðjunum er skipt niður í fimm lotur yfir skólaárið. Fyrstu fjórar smiðjurnar eru vinnusmiðjur og sú fimmta er lokahátíð og uppgjör. Smiðjurnar eru haldnar á tveggja mánaða fresti; fyrst í 7. -11. september, 9.-13. nóvember, 25. – 29. janúar, 15.-19. mars og í lokin hátíð í 21. maí. Hver smiðja er í viku í senn. Hver skóli er hvattur til að aðstoða nemendur til þess að halda áfram með sína listsköpun milli listasmiðjanna og gefi þeim tækifæri og tíma til þess að sinna henni í stundaskrá. Þannig stuðlum við einnig að einstaklingsmiðuðu námi.

Listamennirnir fara á milli skólanna fyrir yngri hópinn og fær hver hópur kennslu í sínum skóla en eldri hópurinn sameinaðast á Tálknafirði. Nemendur í yngri hóp fá fjölbreytta kennslu í öllum listgreinum en eldri hópurinn fær einnig aukinn möguleika á að velja þá listgrein sem þeir hafa áhuga á og fara þannig dýpra í greinina.

Þeir listamenn sem verða í fyrstu Listasmiðjunni eru Þórarinn Hannesson sem verður með skapandi skrif, Daníel Perez Eðvarðsson með myndlist, Marion Worthmann með dans og Svavar Knútur með tónlist. Spennandi verður að fylgjast með þessu verkefni vaxa og dafna.