Í Tálknafjarðarskóla hefur nú verið tekið upp á þeirri nýjung að bjóða uppá starfsnám á unglingastigi á vorönn. Starfsnámið fellur undir valgreinar en nemendur hafa til þess tvær klst á hverjum miðvikudegi út vorönn í skipulagt starfsnám. Hugmyndin kviknaði eftir góðan og innihaldsríkan samráðsfund sem skólastjóri kallaði til undir heitinu Óskaskólinn okkar.  Á þeim fundi var kallað eftir hugmyndum bæjarbúa Tálknafjarðar um skólalóðina, sérstök verkefni og tengingu við atvinnulífið. Í kjölfar fundarins leitaði skólastjóri til fyrirtækja á Tálknafirði um hvort það væri áhugi og vilji til þess að taka við starfsnámsnemum frá grunnskólanum á vorönn 2020. Níu fyrirtæki urðu við þeirri beiðni og voru spennt að taka við starfsnámsnemunum, þau fyrirtæki sem urðu við beiðni okkar voru TV-Verk, Hópið, Allt í járnum, Leikskóladeild Tálknafjarðarskóla, Tungusilungur, Sjótækni, Íþróttamiðstöð Tálknafjarðar, Bæjarvík og Hjá Jóhönnu.

Nemendur völdu sex fyrirtæki sem þau höfðu áhuga á að kynnast nánar og eru nú búin með fyrstu vikuna á vettvangi en þau fá þrjár vikur hjá hverju fyrirtæki sem þau völdu. Allir nemendur fóru mjög spenntir á vettvang og hlakka til komandi vikna. Við þökkum fyrirtækjunum fyrir að taka vel á móti okkur og að taka þátt í verkefninu. Þetta verður vonandi að verkefni sem kemur til með að vera.

Hér fyrir neðan má sjá upplýsingar um markmið, helstu viðfangsefni, lykilhæfni, hæfniviðmið og námsmat

Markmið:
• Að nemendur fái að taka kynnast hinum ýmsu atvinnugreinum sem eru með starfsemi á Tálknafirði.
• Að fyrirtækið kynni fyrir þeim hvers konar menntun er gott að hafa til þess að starfa í greininni.
• Að nemendur geri sér betur grein fyrir atvinnugreininni og geti þannig betur metið hvort þau hafi áhuga á að mennta sig frekar á því sviði.

Helstu viðfangsefni:
• Að kynnast fyrirtækjunum og í hverju starfið felst.
• Að fá tækifæri til þess að vinna að verkefnum innan fyrirtækisins sem ábyrgðarmaður fyrirtækisins ákveður.
• Að halda úti rafræna dagbók í formi vefsíðu um upplifun þeirra á vettvangi.

Lykilhæfni, áherslur: 

Verkefnið byggir kyrfilega á öllum þáttum lykilhæfninnar. Nemendur fá tækifæri til þess að láta reyna á alla þætti og sýna fram á hæfni sína við að tjá og miðla, skapa og gagnrýna, nýta fjölbreytta miðla og meta sína eigin stöðu. 

 • Tjáning og miðlun
 • Skapandi og gagnrýnin hugsun
 • Sjálfstæði 
 • Nýting miðla og upplýsinga
 • Ábyrgð og mat á eigin námi 

Hæfniviðmið:

 • Nemendur geta sýnt fram á skilning á heimabyggð sinni og útskýrt samhengi hennar við störfin sem þar bjóðast.
 • Útskýrt hlutverk stofnana samfélagsins.
 • Gert sér grein fyrir eigin styrkleikum og veikleikum og tekið ákvarðanir á grunni þeirrar sjálfsþekkingar.
 • Sett sér markmið og framtíðaráætlun, til að stefna að í framtíðinni í samræmi við eigin styrkleika og áhuga.
 • Sýnt sjálfsaga, sjálfstraust og virðingu í margvíslegum samskiptum og samstarfi við ólíka einstaklinga.
 • Nýtt hugbúnað/forrit við fjölbreyttar vefsmíðar.

Námsmat:  

 • Byggist á virkni og ástundun nemanda á vettvangi
  • Matsblað frá fyrirtæki
 • Skil á vinnudagbók/leiðarbók