Starfsþróun er mikilvægur hlekkur í faglegu lærdómssamfélagi og stuðlar að aukinni þekkingu og færni starfsfólks auk þess sem það eykur starfsánægju. Hver starfsmaður ber ábyrgð á því að viðhalda færni sinni en það er einnig á ábyrgð skólastjóra að bjóða upp á námskeið sem nýtast í starfi og styður við framtíðarsýn skólans.

Starfsþróun er því meðvitað og mótað ferli sem leiðir til umbóta og jákvæðrar þróunar. Mikilvægt er að starfsþróun sé beintengd daglegu starfi með nemendum og skipulögð í kringum raunveruleg viðfangsefni starfsins. Hún skal hafa skýran tilgang og markmið, miða að því að efla færni og þekkingu starfsfólks skóla og auka gæði í starfi.

 

Starfsþróun á sér stað í faglegu lærdómssamfélagi

Starfsþróun er augljós og samofinn hluti daglegs starfs fagfólks í skólum

Starfsþróun ber einkenni af menningu samfélags í þróun

 

Það sem af er skólaári þá hafa starfsmenn setið tvö Seesaw námskeið; eitt á skipulagsdegi í haust og annað á starfsdegi þann 18. september. Skólinn er að vinna að því að innleiða Seesaw í skólastarfið og byrjaði sú þróun á skólaárinu 2019-2020 á yngsta stigi grunnskólans í gegnum frían (takmarkaðan) aðgang Seesaw. Nú hefur Tálknafjarðarskóli í samstarfi við skólana í Vesturbyggð keypt skólaaðgang að Seesaw og munu því aukast notkunarmöguleikar þess til muna.

 

Hvað er Seesaw?

Seesaw er í raun eins og rafræn námsferilsmappa. Það gerir kennara kleift að senda verkefni sem hann hefur búið til á alla nemendur sína eða einstaka nemendur. Þeir vinna síðan verkefnin og vista þau á sinn stað í smáforritinu. Hver nemandi er með sitt eigið svæði til að geyma öll verkefnin sín á. Nemendur senda kennaranum verkefnið þegar þeir hafa lokið við að vinna það og þá fer kennarinn yfir verkefnið og skilar athugasemd eða sendir það tilbaka ef verkefninu er ólokið. Nemendur geta einnig tekið mynd af verkefnum sem þeir hafa unnið til að geyma þau á sínu svæði t.d. af listsköpun sinni.

Af hverju að nota Seesaw í kennslu?

  1. Seesaw tengir heimili við skóla á einfaldan og öruggan hátt og gefur foreldrum aukna innsýn í það sem börn þeirra eru að vinna að í skólanum. Foreldrar fá aðgang í gegnum forritið Seesaw family. Þar geta fjölskyldumeðlimir séð hvaða verkefni verið er að vinna með, þau geta líkað við og skilið eftir uppbyggilegar athugasemdir hjá verkefnum barna sinna.
  2. Seesaw gefur kennurum kost á að einstaklingsmiða verkefni fyrir hvern nemanda og fá þau til yfirferðar með rafrænum hætti.
  3. Seesaw gefur þann möguleika að bjóða upp á fjölbreytileika kennsluaðferða svo allir nemendur fái þá nálgun sem hentar þeim best.
  4. Seesaw er einnig tól til þess að meta verkefnin út frá Hæfniviðmiðum Aðalnámskrár á einfaldan hátt.

 

Einnig sátu starfsmenn námskeið á vegum Skema á skipulagsdögum í haust en það námskeið var tilkomið vegna styrks sem skólinn fékk í gegnum Forritarar framtíðarinnar. En Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla og auka áhuga á forritun og hagnýtingu á tækni í skólum landsins. Tálknafjarðarskóli fékk námskeiðsstyrk til forritunar- og tæknikennslu ásamt styrk til kaupa á forritunarbúnaði.

Á námskeiðinu fræddust og prófuðu starfsmenn forritið Scratch sem er forritunarmál hannað fyrir ung börn frá leikskólaaldri og upp úr. Það er hannað og viðhaldið af MIT og er ókeypis hugbúnaður og opinn með nokkrum takmörkunum. Einnig kynnti Skema fyrir starfsmönnum forritunarbúnaðinn Blue Bot sem er búnaður til að kenna grunn að forritun og nýtist vel með yngri nemendum skólans. Sveinn Jóhann sér um að kenna yngri nemendum forritun í vetur, frá elstu nemendum leikskóla til yngsta stigs.

 

Svo ber að nefna að hluti af starfsfólki skólans sat einnig námskeið um Kvíða barna sem var á vegum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarðar nú í september. Þar var farið yfir einkenni kvíða hjá börnum, birtingamyndir kvíða, æskileg viðbrögð og aðferðir til að takast á við kvíðaeinkenni.

Mjög nauðsynlegt námskeið sem gefur starfsfólki betri tæki og tól til þess að takast á við kvíða barna.

 

 

Framundan eru fleiri námskeið en skólastjóri mun sitja fjarráðstefnu og vinnustofu í dag sem ber heitið Framúrskarandi skólaumhverfi. Um er að ræða árlega ráðstefnu og vinnustofu með þann tilgang að ýta undir og efla þá stórfenglegu hluti sem eru að gerast í íslensku skólaumhverfi. Þar er varpað fram spurningunni: Hvað þarf til þess að skólarnir okkar verði framúrskarandi? Sjá nánar um viðburðinn hér.

Einnig ber að nefna menntaviðburðinn UTÍS online sem fer fram 25. – 26. septmber. En þrír kennarar eru skráðir á þennan viðburð auk skólastjóra. Um er að ræða menntaviðburð um upplýsingatækni, skólaþróun og nýsköpun en 17 heimsklassa erlendir fyrirlesarar munu m.a. fjalla um skólaþróun, nýsköpun, forritun, læsi, vellíðan nemenda og tækni í skólastarfi auk ýmissa verkefna á milli sem miða að því að efla tengslanet og færni þátttakenda. Hentar kennurum og skólafólki á öllum skólastigum. Nánari upplýsingar hér.

*****

Eins og sjá má á þessari yfirferð þá er starfsfólk Tálknafjarðarskóla að sækja sér markvissa og fjölbreytna starfsþróun sem snýr bæði að námi og líðan barna. Þessi þekking mun nýtast okkur  beint inn í skólastofuna, hún mun skila sér í aukinni þróun á starfsháttum skólans og ennþá hæfara starfsfólki; allt nemendum okkar til framdráttar.